Starfshópur héraðsskjalavarða um persónuvernd hélt fund um væntanleg persónuverndarlög í Mosfellsbæ 8. mars 2018. Allt með fyrirvara um að tilbúinn frumvarpstexti og greinargerð lágu þá ekki fyrir.

Á fundi fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna sem haldinn var á vegum  starfshóps héraðsskjalavarða um persónuverndarmálefni kom fram að hafi stjórnvöld fylgt lögum og reglum sem gilda um opinbera skjalavörslu verði þau ferli sem nauðsynleg teljast skv. nýju lögunum fremur auðveld t.d. að gera grein fyrir vinnslu persónuupplýsinga á hverjum stað. Lögin munu ekki gefa tilefni til að eyða skjölum hjá hinu opinbera, en leggja ríkari skyldur á um það að upplýsa um vinnslu persónuupplýsinga en verið hefur. Mikilvægt er að þetta nái athygli þeirra er starfa að skjalavörslu hjá sveitarfélögum. Þar sem lög um opinbera skjalavörslu hafa ekki náð fram að ganga nema í hluta stjórnsýslunnar ætti hin nýja persónuverndarlöggjöf að verða hvatning til dáða í þeim efnum. Telma Halldórsdóttir lögfræðingur Sambands Íslenskra Sveitarfélaga fjallaði um persónuverndarlöggjöfina sem tekur gildi 25. maí 2018 og áhrif hennar á sveitarfélögin í landinu.

Unnur V. Ingólfsdóttir félagsmálastjóri Mosfellsbæjar, fjallaði um greiningarvinnu félagsmálasviðs Mosfellsbæjar á persónuverndargögnum sviðsins. Fram kom í máli hennar að þetta væri vinna sem yrði að vinna af starfsmönnum stjórnsýslunnar sjálfum, þetta væri hluti af þeirra verkefnum og yrði ekki unnið af öðrum. Linda Udengaard fræðslustjóri Mosfellsbæjar og Magnea Steinunn Ingimundardóttir verkefnastjóri fræðsluskrifstofu, fjölluðu um greiningarvinnu fræðslusviðs Mosfellsbæjar á persónuverndargögnum sviðsins og skóla bæjarins.

Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður í Kópavogi, fjallaði um persónuvernd og samverkan hennar við lög um opinber skjalasöfn og þau skjöl sem persónuverndarlög taka til á héraðsskjalasöfnum. Hann benti á nokkra vankanta sem sníða þarf af framkvæmd skjalavörslu sveitarfélaga, bæði til að uppfylla lög um skjalavörslu hins opinbera, stunda vandaða stjórnsýsluhætti og til að uppfylla hin væntanlegu persónuverndarlög að ógleymdum núgildandi persónuverndarlögum. Loks fjallaði Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður Árnesinga, um tilurð starfshópsins og vinnu hans.

Þátttakendur voru 25 skjalaverðir frá 17 héraðsskjalasöfnum.

Umfjöllun Hrafns Sveinbjarnarsonar

Skýringarmyndir með umfjölluninni

 Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett fram á vefsíðu sinni kynningu um nýja persónuverndarlöggjöf.

 

 

Persónuverndarlög og skjöl sveitarfélaga