(e. principle of provenance, þ. Provenienzprinzip, d. hjemhørsprincip)

Skjalasafni embættis, stofnunar, einstaklings eða lögpersónu skal haldið út af fyrir sig án viðauka og úrfellinga þannig að sú skipan sem það hafði hjá þeim sem myndaði skjalasafnið haldist óbreytt.

Upprunareglan er grundvallarvinnuregla nútímalegrar skjalavörslu.
Annars vegar kveður hún á um að hverju skjalasafni skuli haldið óskertu út af fyrir sig, þ.e. að ytri skipan er haldið (fr. respect des fonds): Að skjalasöfnum sé ekki blandað eða ruglað saman.
Hins vegar að skjalasafni skuli ekki raðað upp á nýtt miðað við það sem var hjá þeim sem myndaði það, þ.e. að innri skipan er haldið, það er stundum kallað strukturprincip (fr. respect de l’ordre intérieure): Að skjalasafni sé ekki raðað upp á nýtt eða fiktað við upprunalega röð þess.

Upprunareglan er stundum sett upp sem andstæða efnissöfnunarreglunnar (e. principle of pertinence, þ. Pertinenzprinzip, d. pertinensprincip) sem er ríkjandi við skipan og meðferð bókasafna, þar sem eintök eru höfð saman og skipað eftir efnisinnihaldi.

Upprunareglan á sér rætur aftur á 18. og 19. öld í stjórnsýslu Danmerkur, Frakklands og Þýskalands og annarra Evrópuríkja. Hún á við hvort sem um er að ræða opinber skjalasöfn eða einkaskjalasöfn.

Upprunareglan gerir það að verkum að þeir sem eiga að sjá um langtímavörslu skjala þurfa einnig að hafa hönd í bagga með því hvaða aðferðum er beitt við daglegt skjalahald. Skjalavarsla snýst því ekki aðeins um langtímavörslu skjala heldur einnig myndun þeirra og skipan hjá þeim sem myndar skjölin.

Sé skjalasafn afhent skjalavörslustofnun (t.d. héraðsskjalasafni), á skjalavörslustofnunin að halda skjölunum í þeirri röð sem þau voru í við afhendingu samkvæmt upprunareglunni.

H.S.