Pistill fluttur á blaðamannafundi á Dómkirkjuloftinu í Reykjavík 3. febrúar 2010 af Hrafni Sveinbjarnarsyni héraðsskjalaverði Kópavogs vegna átaks um söfnun skjala sóknarnefnda í samvinnu Félags héraðsskjalavarða og biskups Íslands

Sóknarnefndir voru fyrst stofnaðar samkvæmt lögum nr. 5/1880 um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda, en fram að því voru kirkjur alfarið í umsjá og á ábyrgð prests eða kirkjubónda en sóknarmenn greiddu nokkur gjöld til rekstrarins.

Miklar breytingar urðu í kirkjumálum á þessum tíma og munar miklu um trúfrelsið sem komst á með stjórnarskránni 1874, en rekstur kirkna, stærð sókna, fjöldi prestakalla og tekjur presta höfðu um nokkurt skeið verið mjög til umræðu.Lögin 1880 um sóknarnefndir þóttu frjálslynd í anda þess sem þá var uppi, að almenningur ætti hlutdeild í málum sínum og ætti kost á því að kjósa fulltrúa sína til að fjalla um þau og gera um þau tillögur.

Upp frá þessu færðist framkvæmdastjórn á fjárhagslegum rekstri kirkna og eignaumsýslu hverskonar á fasteignum og lausum munum til þessara nefnda sem jafnframt áttu og eiga að vera presti til stuðnings við sín störf, guðsþjónustugjörð og annað.Um nokkurt skeið sinntu sóknarnefndir innheimtu sóknargjalda, en það hlutverk færðist til ríkisins 1988.

Sóknarnefndir starfa nú skv. starfsreglum um sóknarnefndir nr. 732/1998 á grundvelli 59. greinar laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Allur gangur er á því hvort skjöl sóknarnefnda hafi skilað sér til héraðsskjalasafna eða ekki. Félag héraðsskjalavarða ætlar sér annars vegar með átakinu að tryggja skjölum sóknarnefnda sem orðin eru 30 ára og eldri örugga geymslu eða yngri skjölum eftir atvikum sem ekki er daglega þörf í kirkjustarfinu. Hins vegar að ná yfirliti yfir allt landið um ástand þessara mála og átta sig á því hvar og hvernig þessi skjöl eru varðveitt og sinna því eftirlitshlutverki sem héraðsskjalasöfn eiga að hafa með skjalavörslu opinberra stofnana í sínu umdæmi sem ekki falla undir eftirlit Þjóðskjalasafns Íslands. Þjóðskjalasafninu er tryggð þátttaka í átakinu þar sem það gegnir hlutverki héraðsskjalasafns á þeim svæðum sem ekki eru í umdæmi sérstaks héraðsskjalasafns.

Fyrsta átak félagsins af þessu tagi snerist um skjöl kvenfélaga og var gefin út skýrsla um árangurinn af því. Ætlunin er að gefa út áþekka skýrslu um skjöl sóknarnefnda þegar átakinu lýkur. Með því næst yfirlit sem ekki hefur verið aðgengilegt áður á einum stað um skjöl sóknarnefnda sem varðveitt eru.

Það er félaginu sérstakt ánægjuefni að njóta fulltingis herra Karls Sigurbjörnssonar biskups Íslands við þetta átak. Það er von okkar að kirkjan og söfnuðirnir finni að þetta sé þeim til gagns. Vel varðveitt skjalasöfn tryggja öryggi um réttindi og skyldur og tengja þá sem nú starfa á vettvangi safnaðanna við forvera sína. Slíkt samhengi eflir undirstöður þeirra stofnana sem mynda skjalasöfn. Vel varðveitt skjalasöfn eru drjúgur hluti af stöðugleika og hefð virðulegra stofnana samfélagsins.
Sóknarnefndir eru ungar stofnanir á mælikvarða sagnfræðinnar og ungar í samanburði við móðurstofnun sína, kirkjuna. Um 130 ár eru síðan fyrstu sóknarnefndirnar voru stofnaðar. Ekki er seinna vænna að ná heildaryfirliti um skjöl þeirra og vænti ég þess að í ljós muni koma vitnisburður um samviskusemi og reglusemi í því óeigingjarna starfi sem fram fer í kirkjunum um land allt.

Þau skjöl sem sérstaklega má nefna sem almennt er að finna í vörslu sóknarnefnda eru:
Gerðabækur sóknarnefnda
Gerðabækur byggingarnefnda kirkna
Sjóðsbækur og bókhaldsskjöl
Kirkjubók sóknarnefnda
Kirkjuskrár, kirkjustólar (eignaskrár)
Bréfasafn
Skjöl er varða starfsemi kirkjukóra.
Önnur skjöl eins og ljósmyndir, teikningar og uppdrættir af orgelum og kirkjubyggingum og fleira.