Skýrsla um skjöl íþróttafélaga
Á íþróttaþingi 20. apríl 2013 voru niðurstöður af átaksverkefni Félags héraðsskjalavarða og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kynntar og útgáfa á skýrslu um skjöl íþróttafélaga á héraðsskjalasöfum á Íslandi var gefin út. Átakið hófst 18. apríl 2012 í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands með blaðamannafundi í húsnæði Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Meginmarkmið átaksins var að safna og skrá skjöl íþróttafélaga s.s. fundargerðir,sendibréf, félagaskrár, bókhald og ljósmyndir svo dæmi séu tekin. Þó átakinu sé formlega lokið, markar skýrslan vonandi fremur upphaf að góðu sambandi og samvinnu íþróttafélaga og héraðsskjalasafna þar sem félögin er meðvituð um mikilvægi þess að varðveita skjöl sín og héraðsskjalasöfnin reiðubúin til að aðstoða við skráningu skjalanna.
Góður árangur hefur orðið af átakinu en milli 150 og 200 hillumetrar af skjölum íþróttafélaga eru nú í vörslu héraðsskjalasafnanna en þetta eru skjöl meira um 300 íþróttafélaga. Skýrslu um Skjöl íþróttafélaga í Héraðsskjalasöfnum á Íslandi má finna hér.
Áfram verður unnið að söfnun á skjölum íþróttafélaga og eins og fram kemur í formála skýrslunnar skiluðu nokkur söfn ekki inn upplýsingum um skjöl íþróttafélaga á sínu starfssvæði. Skýrslan verður því endurútgefin með viðbótum síðar.