Ritið Sauðfjárbúskapur í Kópavogi eftir Dr. Ólaf R. Dýrmundsson kom út föstudaginn 19. maí 2017 á 60 ára afmælisdegi Sauðfjáreigendafélags Kópavogs. Ritið er hið fimmta í röð smárita Sögufélags Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs.
Bókin er 78 blaðsíður að lengd og hefur að geyma sögu sauðfjárbúskapar í Kópavogi á 20. og 21. öld, fjallað er um fjallskil í nánd þéttbýlis, lögskilaréttir, fjárskipti, sauðfjárstríð í Reykjavík, hrútasýningar, sauðfjárböðun, uppgræðslu, öflun heyja og fjármörk. Sauðfjáreigendafélag Kópavogs hefur gegnt lykilhlutverki í þessari atburðarás í 60 ár og er ritið því einnig saga þess.

Í bókinni er fróðleikur sem ekki liggur á lausu annarsstaðar um sögu sauðfjárbúskaparins í Kópavogi ásamt staðfræði sem ekki býr að jafnaði lengur í huga manna nema þeirra sem sjálfir fóru í göngur og leitir á svæðinu, örnefnakort er í ritinu. Saman við þetta fléttar Ólafur frásagnar- og endurminningakafla, örsögur, m.a. af Jóni í Digranesi sem bjargaðist af flæðiskeri í Fossvogi. Í viðbæti er félagaskrá Sauðfjáreigendafélags Kópavogs frá 1957-2017 auk nafna fjáreigenda í Kópavogi sem ekki áttu aðild að félaginu.

Í tilefni útgáfunnar 19. maí var haldin samkoma í Héraðsskjalasafninu að Digranesvegi 7 þar sem hittust nokkrir fyrrverandi og núverandi sauðfjáreigendur auk fulltrúa útgefenda ritsins. Þarna voru fulltrúar frá lögbýlunum að Fífuhvammi og Vatnsenda, frá nýbýlunum Grænuhlíð og Snælandi og nokkrir aðrir sem haldið hafa fé í Kópavogi. Formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur sótti og samkomuna.

Frá vinstri: Kolbrún Kristinsdóttir stjórnarmaður í Sögufélagi Kópavogs, Þórður St. Guðmundsson formaður Sögufélags Kópavogs og Sigurður Skúlason frá Snælandi. Mynd: Guðmundur Þorsteinsson.
Frá vinstri. Jóhannes Viggósson og Málfríður Ólína Viggósdóttir frá Fífuhvammi, Gerður Guðmundsdóttir frá Grænuhlíð og Ólafur R. Dýrmundsson höfundur smáritsins. Mynd: Guðmundur Þorsteinsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hin smáritin í ritröðinni eru:

1. Minningar af Kársnesi eftir Eyþór Sigmundsson og Helgu Sigurjónsdóttur. 2012.

2. Kampar í Kópavogi. Herbúðir bandamanna í landi Kópavogs og næsta nágrenni eftir Friðþór Eydal. 2013.

3. Vatnsendi. Úr heiðarbýli í þétta byggð eftir Þorkel Jóhannesson 2013.

4. Landnemar í Kópavogi eftir Leif Reynisson 2016.

Þeir sem áhuga hafa á að nálgast þessi rit er bent á Héraðsskjalasafn Kópavogs sem er til húsa að Digranesvegi 7 (gamla pósthúsið). Einnig er hægt að skrá sig í Sögufélag Kópavogs á vefsíðu félagsins www. vogur.is og í Héraðsskjalasafninu.

Sauðfjárbúskapur í Kópavogi