Miðvikudaginn 23. janúar 2019 voru liðin 40 ár frá því að Bæjarstjórn Neskaupstaðar samþykkti á fundi sínum að stofna til héraðsskjalasafns fyrir Neskaupstað. Af þessu tilefni bauð Skjala- og myndasafn Norðfjarðar – Héraðsskjalasafnið í Neskaupstað, velunnurum sem og öðrum til kaffidrykkju í Safnahúsinu við Egilsbraut
Talsverður fjöldi lagði leið sína í Safnahúsið í tilefni dagsins og nutu góðra veitinga. Nokkrar ræður voru fluttar í tilefni dagsins. Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar flutti safninu kveðju og fjallaði um mikilvægi þess að safna og varðveita skjöl, Smári Geirsson sagnfræðingur og fyrrverandi formaður bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar tók í sama streng og færði safninu að gjöf bók á norsku sem var prentuð í Noregi 1892 og er með stimpli M. C. Bull veiðistjóra á hvalstöðinni í Hellisfirði í Norðfirði og Guðmundur Rafnkell Gíslason, framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað, fjallaði um mikilvægi skjalasafnsins fyrir sögu og samfélag og færði safninu fyrir hönd SÚN, höfðinglega peningagjöf til tölvukaupa og tæknivæðingar. Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur í Neskaupstað fór einnig fögrum orðum um safnið og verk þess. Hann ánafnaði safninu ræðusafn sitt sem hefur orðið til í starfi hans sem sóknarprests undanfarin 20 ár. Fleiri tóku til máls.
Veislustjóri var Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og formaður Safnanefndar Fjarðabyggðar. Konur frá Kvenfélaginu Nönnu, elsta starfandi félagi á svæðinu stofnuðu 27. janúar 1907, sáu um veitingar og félagar úr Harmonikkufélagi Norðfjarðar léku nokkur lög.
Héraðsskjalavörðurinn Guðmundur Sveinsson er einn öflugasti héraðsskjalavörður landsins, hefur verið vakinn og sofinn í þessi 40 ár við söfnun merkra skjala til sögu svæðisins.