Tveir sagnfræðingar hafa gert þungorðar athugasemdir við áform fjármálaráðuneytisins um stafræn pósthólf á samráðsgátt island.is.
Um leið hafa þeir dregið í efa að farið sé að lögum um opinber skjalasöfn við starfsemi vefgáttarinnar island.is. Lögfest forstöðumannsábyrgð á skjalavörslu sé tvímælalaust rofin og gögn sem falla undir lög um opinber skjalasöfn séu í annarra höndum en lögin kveða á um. Benda þeir á að eftirlitsstofnun með skjalavörslu ríkisstofnana, Þjóðskjalasafn Íslands, heyri undir ráðherra í ríkisstjórn Íslands, en verkefnið Stafrænt Ísland sé á vegum ríkisstjórnar Íslands. Þetta kunni að valda vanhæfi Þjóðskjalasafnsins til að gegna eftirlitshlutverki sínu í málinu.
Gögnin sem um ræðir t.d. einkunnir úr framhaldsskólum séu farin undan lögum um opinber skjalasöfn og þá taki persónuverndarlög við. Er við því að búast að fjármálaráðuneytið verði í framhaldi af þessari umsögn að tilkynna Persónuvernd um öryggisbrest í samræmi við 27. grein persónuverndarlaga.
Stjórnvöld stefna í það að fara langt út fyrir hlutverk sitt með þeim hugmyndum sem að baki island.is búa og áformum um stafrænt pósthólf að mati sagnfræðinganna. Skv. upplýsingalögum ber borgaranum að beina erindi sínu til viðeigandi stjórnvalds, og stjórnvöld hafa leiðbeiningaskyldu við borgarana í þeirri viðleitni. Stjórnvöld megi ekki samkeyra upplýsingar í því augnamiði að borgararnir sendi öll sín erindi á einn stað og taki við svörum á einum stað. Minni slíkt á einræðisstjórnir og fræg skáldverk um alræði t.d. 1984 eftir Orwell og Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley. Þetta sé undir formerkjum þjónustu sem í reynd sé bjarnargreiði. Benda sagnfræðingarnir á berskjöldun gagna á stafrænu formi fyrir hökkurum meðan engin slík hætta steðji að hefðbundnum pappírsskjölum.
Þeir benda á að sparnaðarhugmyndir sem fylgja áformunum séu ekki boðlegar í ljósi þess að þær séu fram settar í nafni fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Aðrar umsagnir um málið er að finna hér.