Lagt hefur verið til að leggja Borgarskjalasafn Reykjavíkur niður. Hefur þetta vakið nokkrar áhyggjur þar sem opinber skjalasöfn fela í sér innsta kjarna stjórnsýslu og menningar hjá sveitarfélögum og ríki. Að jafnaði er ekki búist við að ábyrg öfl innanlands geri þjóðþrifastofnunum sem vinna að almannaheillum slíka skrokkskjóðu. Fremur væri við því að búast að á slíkar stofnanir væri ráðist af óvinveittu innrásarliði. Óvissan er alger um örlög og afdrif safnkosts Borgarskjalasafns verði samþykkt í borgarstjórn á morgun 7. mars að leggja skjalasafnið niður. Talað hefur verið um að Borgarsögusafn taki að sér hluta safnkostsins, en þar starfa ekki skjalaverðir. Siðaskrá Alþjóða skjalaráðsins gildir um starfsemi skjalasafna. Það er mikilvægt að fagmenn sem hafa skjalavörslu á valdi sínu sinni safnkostinum. Meðferð sjúklinga er að jafnaði talin eiga að vera í höndum lækna, en ekki skottulækna.
Hætt er við að borgarfulltrúar sem greiða því atkvæði sitt á borgarstjórnarfundi á morgun að leggja niður Borgarskjalasafnið skapi sér með því heróstratíska*) frægð verði það að veruleika. Næsta víst er að sagnfræðingar á Íslandi hafa augun á borgarstjórn á morgun og þeir munu rita söguna. Bæði Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag hafa ályktað Reykjavíkurborg til hvatningar að halda áfram rekstri Borgarskjalasafns. Að augu sagnfræðinga beinast svo mjög að málinu kann að hafa áhrif á eftirmæli borgarfulltrúa: Þegar Taejong Kóreukonungur (1367-1422) féll eitt sinn af hestbaki spurði hann strax með öndina í hálsinum hvort hirðsagnaritarinn væri ekki í öruggri fjarlægð, en svo var ekki, þess vegna var það fært í annála og er minnst hér. En eitt er að verða fyrir stundaróhappi óviljandi og annað að valda íbúum Reykjavíkur langvarandi tjóni af ásetningi.
Til að minna borgarfulltrúa á gildi og nauðsyn Borgarskjalasafns fyrir Reykjavíkurborg sendu tveir héraðsskjalaverðir þeim minnisblað 28. febrúar sl. og má sjá það hér:
*) Herostratus var maður sem átti sér þá ósk heitasta að verða frægur og kveikti því í Artemisarhofinu í Efesus. Yfirvöld bönnuðu að nafn hans yrði nefnt (með damnatio memoriae eða gleymskufordæmingu) en það kom fyrir lítið, frægð hans að endemum fór víða og svo mjög að enn er við slík tækifæri talað um heróstratíska frægð.