Ný lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hafa verið sett nú í maí og leysa af hólmi lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og að nokkru upplýsingalög nr. 50/1996, en með nýjum upplýsingalögum nr. 140/2012 var tekin sú ákvörðun að danskri fyrirmynd að skipta löggjöf um upplýsingarétt á milli upplýsingalaga og laga um opinberar skjalavörslustofnanir. Hefur því verið haldið fram að með þessu myndist „heildstæðari rammi um upplýsingarétt almennings“ sem vekur undrun því tvenn lög eru tæplega heildstæðari en ein.
Hin nýju lög um opinber skjalasöfn hafa í för með sér ýmsar breytingar er varða skjalavörslu sveitarfélaga og stöðu héraðsskjalasafna.
Í nýju lögunum er beinlínis kveðið á um að héraðsskjalasafn sé sjálfstætt opinbert skjalasafn og að það skuli hafa eftirlit með með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir þangað um skjöl sín. Skv. hinum eldri lögum nr. 66/1985 var sjálfstæði héraðsskjalasafna aðeins á grundvelli reglugerðar og eftirlitshlutverkið framselt héraðsskjalasöfnum af Þjóðskjalasafni Íslands. Sérstaða þeirra og sjálfstæði að lögum hefur því aukist frá því sem áður var.
Umdeilt er hvort afhendingarskylda til héraðsskjalasafna hefur aukist eða minnkað við þær lagabreytingar sem hafa átt sér stað með upplýsingalögum nr. 140/2012 og þessum nýju lögum, vegna ágreinings um túlkun hinna fyrri laga nr. 66/1985. Skýrari viðmið um eignarhald skilgreina nú afhendingarskylduna.
Sérstakar refsiheimildir eru komnar í lögin er varða þagnarskyldu og vanrækslu á vörslu skjala en áður varð aðeins byggt á almennum hegningarlögum hvað varðaði tjón á eigum hins opinbera þegar skjöl voru annars vegar.
Ákvörðunarvald um eyðingu opinberra skjala er nú aðeins í höndum þjóðskjalavarðar en var áður í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands og þar áður háð samþykki landsstjórnarinnar. Stjórnarnefndin fer ekki lengur með yfirstjórn Þjóðskjalasafnsins og er nú þjóðskjalaverði aðeins til ráðgjafar.
Staða Þjóðskjalasafns Íslands og skjalavörsluskyldu hefur veikst að því leyti að Alþingi og umboðsmaður Alþingis lúta nú ekki lengur lögum um opinbera skjalavörslu og skjalavarsla þeirra er ekki bundin neinni löggjöf. Skjalavarsla löggjafarsamkomunnar er því laus undan lögum. T.d. kemur ekki skýrt fram í lagatextanum hvort ríkisendurskoðun, sem er ein stofnana Alþingis eigi að lúta þessari löggjöf.
Lögin hafa að geyma meiri texta en fyrri löggjöf. Þau eiga sér nokkurn aðdraganda, en heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands hófst með því að menntamálaráðherra skipaði starfshóp um hana 24. september 2008 og drög laganna voru sett í almennt umsagnarferli í desember 2010, þá fyrst höfðu héraðsskjalaverðir tækifæri til að koma faglegum sjónarmiðum sínum að. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um ýmsa þætti laganna sem snerta fagleg efni, almannahag og upplýsingaöryggi eins og hefur komið fram áður á þessum vef. Sumt í hinum nýju lögum er óneitanlega til bóta, en ljóst er að betur hefði mátt standa að undirbúningi lagasetningarinnar með samstarfi við héraðsskjalasöfnin þegar í upphafi. Lögin eru ekki gallalaus, en eftir þeim starfa opinber skjalasöfn nú.