Mánudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í deginum að vanda. Daginn ber upp á annan í hvítasunnu að þessu sinni og mun því Félag héraðsskjalavarða á Íslandi standa fyrir málþingi fyrir starfmenn héraðsskjalasafna miðvikudaginn 11. júní. Gagnger endurskoðun á vefsíðu félagsins stendur yfir þessa dagana og er stefnt að því að henni ljúki hið fyrsta.
Um Alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.
Vefur Alþjóðlega skjaladagsins 2014.
Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.