Föstudaginn 6. desember 2013 blés Félag um skjalastjórn til afmælisfagnaðar í Iðnó til að halda upp á 25 ára afmæli sitt. Héraðsskjalaverðir árna félaginu heilla á þessum tímamótum.
Félagið var stofnað þann 6. desember árið 1988. Stofnfélagar voru 57 talsins en félagsmenn eru nú yfir 250 talsins. Það var Áhugahópur um skjalastjórn sem undirbjó stofnun félagsins en hann hafði þá starfað um 18 mánaða skeið og staðið fyrir fræðslu um skjalastjórn, meðal annars fengið hingað til lands bandarískan fyrirlesara.
Markmið Félags um skjalastjórn er að efla þekkingu og skilning á skjalastjórn hjá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum; ennfremur að efla tengsl þeirra sem starfa við skjalasöfn og stuðla að samvinnu þeirra á milli. Félagið stendur fyrir námstefnum og fræðslufundum um ýmsa þætti skjalastjórnar. Aðild að félaginu er opin öllum þeim sem eru hlynntir markmiðum félagsins.
Á afmælisfagnaðinum tilkynnti Eva Ósk Ármannsdóttir formaður Félags um skjalastjórn að stjórn félagsins hefði ákveðið að gera Kristínu Hagalín Ólafsdóttur og Svanhildi Bogadóttur gerðar að heiðursfélögum félagsins fyrir frumkvöðlastarf þeirra við stofnun félagsins og störf þeirra að skjalamálum síðastliðin 25 ár.
Svanhildur Bogadóttir hefur verið borgarskjalavörður í Reykjavík frá árinu 1987. Hún lauk BA-gráðu í sagnfræði og bókmenntum frá HÍ 1985, MA-gráðu í sagnfræði frá New York University 1987, starfsréttindanámi í stjórnun skjalasafna frá sama skóla árið 1987 og MBA gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármálastjórnun frá Haagse Hogeschool, Den Haag í Hollandi árið 2002. Svanhildur var einn af stofnfélögum Félags um skjalastjórn árið 1988, varaformaður 1988-1989, formaður 1989-91, í stjórn nokkur ár eftir það, varaformaður 1996-1998 og ritstjóri Fréttabréfs félagsins frá 1997-2004. Hún er nú í stjórn Félags héraðsskjalavarða á Íslandi og í Samráðshópi héraðsskjalavarða um rafræna langtímavörslu.
Í starfi sínu sem borgarskjalavörður í 26 ár hefur Svanhildur komið víða að skjalamálum. Hún hefur lagt áherslu á að góð og skipulögð skjalastjórn væri forsenda þess að skjöl varðveittust til frambúðar og mikilvægi þess að skrá skjalasöfn sem fyrst eftir að þau berast. Svanhildur hefur kennt á fjölda námskeiða um skjalastjórn, haldið fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis um skjalamál, lagt áherslu á markaðssetningu skjalasafna og miðlun efnis til almennings bæði með sýningum og á vef. Á undanförnum árum hefur hún beitt sér fyrir að gera skjalaskrár og skjöl Borgarskjalasafns aðgengileg á vef safnsins og ritstýrt fjórum vefjum þess auk Facebook síðu. Hún hefur verið í margvíslegu erlendu samstarfi og í nefndum um skjalamál á vegum Evrópusambandsins.Svanhildur hefur lagt áherslu á gott samstarf milli skjalastjóra og skjalasafna og verið félagsmaður í Félagi um skjalastjórn frá upphafi. Þá hefur hún lagt áherslu á mikilvægi samstarfs opinberu skjalasafnanna og á þörf þess að efla héraðsskjalasöfnin.
Kristín Hagalín Ólafsdóttir er skjala- og upplýsingastjóri velferðarráðuneytis. Hún lauk BA-próf í bókasafnsfræði og almennri bókmenntafræði frá HÍ og meistarapróf í skjala- og upplýsingastjórnun frá University of Northumbria at Newcastle í Bretlandi. Kristín var stofnandi og einn eigenda Gangskarar sf., ráðgjafar- og þjónustufyrirtækis á sviði skjala- og upplýsingamála frá 1984 – 2002; skjala- og upplýsingastjóri í heilbrigðisráðuneytinu frá 2002 – 2010 og skjala- og upplýsingastjóri í velferðarráðuneytinu frá 2011. Hún er prófdómari og stundarkennari í bókasafns- og upplýsingafræði við HÍ.
Kristín var fyrstu formaður Félags um skjalastjórn og í orðanefnd félagsins. Kristín hefur haldið námskeið og fyrirlestra um skjala- og önnur upplýsingamál á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskólans, Félags um skjalastjórn, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Stjórnunarfélags Íslands, Verzlunarskóla Íslands, Viðskiptaskóla Stjórnunarfélagsins og Nýherja hf. og Reykjavíkurborgar svo og námskeið og fyrirlestra innan ýmissa fyrirtækja, félaga og stofnana.