her_arn_2003_42_rh_06358

Vígsla Hveragerðiskirkju 14. maí 1972. Ragna Hermannsdóttir ljósmyndari.

Starfsmenn á Héraðsskjalasafni Árnesinga hafa ekki setið með hendur í skauti undanfarið. Á Safnahelginni á Suðurlandi voru 15.000 ljósmyndir settar á vefsíðu skjalasafnsins, myndasetur.is. Nú eru rúmlega 60.000 ljósmyndir á vefnum, flestar teknar í Árnessýslu og á Suðurlandi.

Þetta er hluti af samstarfsverkefni héraðsskjalasafnanna á Egilsstöðum, Sauðárkróki og Selfossi en verkefnið er styrkt af Alþingi/Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Sveitarfélagið Árborg og Menningarráð Suðurlands hafa einnig styrkt verkefnið rausnarlega í Árnesþingi.

Nú voru myndir frá Rögnu Hermannsdóttur ljósmyndara í Hveragerði settar á vefinn. Ragna fæddist á Stóruvöllum í Bárðardal. Hún fór 18 ára gömul í Garðyrkjuskólann á Reykjum. Ragna ferðaðist mikið um landið ásamt manni sínum Hannesi Arngrímssyni og fékk þá áhuga á ljósmyndun. Hún lærði ljósmyndun við amerískan bréfaskóla 1972-1974. Myndir Rögnu, sem skipta þúsundum, er skemmtilegur vitnisburður um þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í Hveragerði frá því um 1970

Þá voru fleiri myndir frá Sigurði Jónssyni fyrrv. fréttaritara Morgunblaðsins settar á vefinn en yfir 15.000 myndir úr safni Sigurðura eru nú á vefnum.

her_arn_2013_10_oe_08103

Sigurður Grétar Ottósson og Óli Kristinn Ottósson að leika sér í fótbolta. Ljósmyndari Ottó Eyfjörð.

Flestar þeirra mynda sem nú voru settar eru úr safni Ottó Eyfjörð frá Hvolsvelli. Ottó fæddist í Vestmannaeyjum en flutti að Skammbeinsstöðum í Holtahreppi 11 ára gamall með móður sinni og yngri bróður. Ottó var bílstjóri hjá Kaupfélagi Rangæinga í 50 ár, keyrði vörubíl og fóðurbíl. Á ferðum sínum tók Ottó mikinn fjölda mynda af mannlífi í Rangarvalla- og Árnessýslum. Ottó endurvann einnig mikið af gömlum ljósmyndum, handmálaði myndir, framkallaði og stækkaði. Nú voru 8.500 myndir frá Ottó settar á vefinn. Ætla má að safn Ottó sé liðlega 30.000 ljósmyndir.

15.000 nýjar myndir