Sögufélag Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs gáfu nýverið út þriðja ritið í röð smárita um sögu Kópavogs. Það heitir Vatnsendi, úr heiðarbýli í þétta byggð og er eftir dr. Þorkel Jóhannesson lækni.

Þar er lýst hvernig jörðin umbreytist á 20. öld, frá því að vera ein af fyrstu jörðunum hér á landi sem varð fyrir skerðingu vegna virkjanaframkvæmda, hvernig hún varð einnig ein af fyrstu jörðunum sem lagði töluvert land undir viðamikla sumarhúsabyggð og hvernig hún hefur á síðustu árum breyst á miklum hraða í borgarland. Fjöldi mynda frá fyrri tíð prýðir ritið. Þorkell Jóhannesson prófessor í lyfjafræði og eiturefnafræði við Háskóla Íslands 1968-1999 er höfundur þess. Hann hefur skrifað fjölda greina í Læknablaðið og erlend fræðirit um læknisfræðileg efni en einnig hefur hann verið afkastamikill greinahöfundur um sögulegan fróðleik, hafa greinar hans birst m.a. í Landnámi Ingólfs, Goðasteini, Skildi, Hestinum okkar, Heima er bezt og fleiri ritum. Þorkell var í mörg ár við sumarstörf á Vatnsenda.

Við samningu greinarinnar studdist Þorkell m.a. við dagbækur Magnúsar Hjaltested eldra (1872-1940) og dagbókarbrot Lárusar Hjaltested (1892-1956) sem báðir bjuggu lengi á Vatnsenda, en dagbækur þeirra eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Án dagbókanna hefði ekki verið hægt að gera búskaparsögu jarðarinnar jafn ítarleg skil og raun ber vitni og er það áminning um nauðsyn þess að skrá og varðveita heimildir um daglegt líf, því þegar frá líður verður hversdagurinn æ meira framandi og heimildir um hann mikilvægar til greiningar á fyrri tíð. Varðveisla skjala einstaklinga, félaga og fyrirtækja á skjalasöfnum leikur þar stórt hlutverk.

Smáritum Sögufélags Kópavogs og Héraðssskjalasafns Kópavogs hefur verið vel tekið frá því þau hófu göngu sína í desember 2012. Fyrri tvö ritin, Minningar af Kársnesi eftir Eyþór Sigmundsson og Helgu Sigurjónsdóttur og Kampar í Kópavogi  eftir Friðþór Eydal, vöktu lukku meðal félagsmanna Sögufélags Kópavogs. Hið fyrra fjallar um frumbýlingsárin við Borgarholtsbraut á árunum upp úr 1940 og hið síðara um herskálabyggðir bandamanna í landi Kópavogs. Félagsmenn í Sögufélaginu fá ritin send heim þegar þau koma út og er það innifalið í árgjaldi félagsins, 2.000 kr. Stefnt er að því að tvö rit komi út á hverju ári. Aðrir geta nálgast stök rit í Héraðskjalasafni Kópavogs, Digranesvegi 7. Kostar rit I kr. 1.000 en rit II og III kr. 1.500 hvort um sig. Hægt er að ganga í Sögufélagið á heimasíðu þess, www.vogur.is.

GMH

Nýtt rit um Vatnsenda