12. desember var ljósmynd nr. 40.000 sett á vef Ljósmyndasafns Akraness en myndin er frá litlu jólunum í Barnaskóla Akraness árið 1973.
Stöðugt bætist við þær upplýsingar sem skráðar eru á vefinn, bæði af starfsmönnum ljósmyndasafnsins og eins berast ábendingar frá þeim sem skoða vefinn. Safnið nýtur stuðnings fjölda fólks sem skoðar vefinn reglulega og sendir inn upplýsingar.
Hlutverk Ljósmyndasafns Akraness er að safna, skrá og varðveita ljósmyndaefni svo sem ljósmyndir, glerplötur, filmur, og skyggnur sem og önnur gögn og skjöl sem tengjast greininni og hafa menningarsögulegt gildi og varpa ljósi á sögu Akraness.Safnið var stofnað 28. desember 2002 í tilefni af 60 ára afmæli kaupstaðarins. Fyrsta framlag til safnsins kom frá feðgunum Helga Daníelssyni og Friðþjófi Helgasyni en við stofnun safnsins afhentu þeir hluta af ljósmyndaverkum sínum jafnframt sem undirritað var samkomulag um að þeir afhentu safninu allar ljósmyndir sínar og filmur í fyllingu tímans. Söfn fjölda ljósmyndara eru nú varðveitt á ljósmyndasafninu.
Safnið tekur við og varðveitir efni frá fyrirtækjum, stofnunum og einkaðilum sé þess óskað.
Ljósmyndasafn Akraness hefur jafnframt það hlutverk að festa samtímasögu kaupstaðarins á mynd sem og að afla skipulega heimildaljósmynda um sögu hans.