Langtímavarsla rafrænna gagna er eitt af verkefnum héraðsskjalasafnanna þar sem sveitarfélög mynda slík gögn. Þjóðskjalasafn Íslands hefur ákveðið að taka upp aðferð Ríkisskjalasafns Danmerkur við slíka varðveislu og felst hún í því að halda gögnunum annars vegar á einfölduðu rafrænu textaformi og hins vegar á TIFF myndum og vista þetta reglulega á diska. Hefur þetta í för með sér að útbúa þarf sérstakar vörsluútgáfur gagna út úr þeim tölvukerfum sem gögnin voru mynduð í.
Þrír héraðsskjalaverðir hafa gert umsagnir um nýjar reglur um afhendingu á vörsluútgáfum gagna úr rafrænum gagnakerfum afhendingarskyldra aðila sem settar voru fram til umsagnar á vef Þjóðskjalasafns Íslands 9. júlí 2013.
Þarna mun vera þýtt og staðfært úr dönsku: Bekendtgørelse nr. 1007 af 20. august 2010 om arkiveringsversioner.
Í umsögnum héraðsskjalavarðanna er bent á ýmislegt sem betur mætti fara og mælt með því að þýðing reglnanna verði tekin til endurskoðunar.
Athygli er vakin á að héraðsskjalasöfn eru sett til hliðar í textanum, en hlutverki þeirra samkvæmt eiga þau að taka öll skjöl sveitarfélaga sem að þeim standa til varðveislu.
Bent er á að reglurnar hafi ekki verið lagaðar að íslenskri löggjöf hvað varðar eyðingu skjala.
Vanta þykir greinargerð fyrir því hvernig og hvers vegna staðfært er frá dönsku gerð reglnanna, en mörk virðast óljós milli þess að staðfært er og þýtt ónákvæmlega.
Sameiginleg umsögn héraðsskjalavarða Árnesinga og Kópavogs