ICOM á Íslandi stóð fyrir málstofu um Bláa skjöldinn á Íslandi 6. júní 2013 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Var þar fjallað um vernd menningarverðmæta í átökum og náttúruhamförum. Málstofan var fjölsótt fólki úr söfnum, skjalasöfnum og bókasöfnum víða að af landinu.

Blái skjöldurinn er samstarfsvettvangur alþjóðasamtaka um vörslu menningarverðmæta þ.e. hverskonar minja- og listasafna, skjalasafna, bókasafna og minnismerkja, sögu- og minjastaða og grundvallast á Haag sáttmálanum frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

Ísland er eitt þriggja ríkja í Evrópu sem ekki hefur gerst aðili að sáttmálanum. Má tvímælalaust efla rækt Íslendinga við eigin þjóðmenningu með því að breyta því með aðild Íslands.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður setti málstofuna. Ólöf K. Sigurðadóttir formaður Íslandsdeildar ICOM skýrði frá aðkomu félagsins að verkefninu. Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður gaf yfirlit um Bláa skjöldinn og Haag sáttmálann um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

Leif Pareli, fulltrúi ICOM í landsnefnd Bláa skjaldarins í Noregi fjallaði um stofnun landsnefndarinnar í Noregi árið 2000 og gaf hugmynd um hvernig standa mætti að málum hér á landi. Hafði hann meðferðis og dreifði meðal gesta spilastokkum sem Blái skjöldurinn hefur látið útbúa í Noregi og hefur m.a. verið dreift til norskra hermanna þeim til upplýsingar. Á spilunum eru upplýsingar um menningarverðmæti og vernd þeirra.
Þau má sjá hér.
Í máli Leif Pareli kom fram að mikilvægt væri að sem flest ríki skrifuðu undir, fullgiltu og kæmu á Haag samningnum frá 1954, því þá yrðu meiri líkur á því að samningurinn og ákvæði hans yrðu bindandi fyrir öll ríki á grundvelli venjuréttar óháð því hvort þau ættu aðild að samningnum eða ekki.

Ábending barst í framhaldi af málstofunni frá Atla Viðari Thorstensen verkefnastjóra um flóttamannamál og alþjóðleg mannúðarlög hjá Rauða krossi Íslands um að örfá ákvæði varðandi menningarverðmæti hafi ratað í þennan venjurétt, sem alþjóðadómstólar geta lagt til grundvallar í dómum sínum.
Eftir áralanga og umfangsmikla rannsókn Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem gefin var út árið 2005 var skilgreind 161 regla sem telst til venjuréttar í skilningi alþjóðlegra mannúðarlaga. Þar koma fram þessi ákvæði sem sérstaklega eiga við um menningarverðmæti.
Styrkir þetta enn rök fyrir því að Ísland gerist aðili að Haag sáttmálanum.

Nathalie Jacqueminet, fagstjóri forvörslu á Þjóðminjasafni Íslands og Dagný Heiðdal, deildastjóri Listaverkadeildar á Listasafni Íslands fjölluðu um öryggismál safna og náttúruhamfarir. Þar kynntu þær m.a. handbók um varðveislu safnkosts sem er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns, Þjóðskjalasafns og Landsbókasafns Íslands en í henni er fjallað um öryggismál. Áður hafa þær fjallað um efnið á vorfundi Þjóðminjasafns Íslands árið 2012.

Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða fjallaði um viðbrögð við náttúruhamförum og kynnti áhugaverða skýrslu sem kom út árið 2008Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum og skýrði frá því hvernig vinnan við hana kom að notum við raunverulegar aðstæður í Suðurlandsskjálftanum 29. maí  2008. Sannaðist þar rækilega að viðbúnaður við hinu óvænta kemur að góðum notum.

Virtist samhugur ríkja meðal þeirra er sóttu málstofuna um að þjóðþrifamál væri að koma Bláa skildinum á Íslandi á laggirnar hið fyrsta.

Óhöpp og hamfarir koma alltaf á óvart og mikilvægt að viðbúnaður við hinu óvænta í þeim efnum sé til staðar. Tjón má lágmarka með skynsamlegum varúðarráðstöfunum, annars getur illa farið eins og dæmin sanna. Í Heimaeyjargosinu 1973 fór betur en á horfðist, en illa fór í Reykjavíkurbrunanum 1915.

Blái skjöldurinn – málstofa