Sunnudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn (International Archives Day) haldinn hátíðlegur í sjötta sinn. Skjalasöfn um allan heim taka þátt með einum eða öðrum hætti og af þessu tilefni verður í dag, föstudaginn 6. júní kl. 14-16, opið hús í eftirtöldum héraðsskjalasöfnum:

Borgarskjalasafn Reykjavíkur
Héraðskjalasafn Kópavogs
Héraðskjalasafn  Árnesinga, Selfossi
Héraðsskjalasafnið á Ísafirði
Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar
Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar
Héraðsskjalasafn Vestmanneyja
Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu, Hornafirði
Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Húsavík
Héraðsskjalasafn Svarfdæla, Dalvík
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Borgarnesi

Á Alþjóðlega skjaladeginum er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á vef alþjóða skjalaráðsins ICA er hægt að skoða dagskrá safna annarra landa.

Héraðsskjalasöfn víða um land taka þátt í Alþjóðlega skjaladeginum en þau eru tuttugu talsins. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Með því tryggja þau upplýsingarétt almennings og gagnsæi stjórnsýslunnar, ekki aðeins í dagsins önn, heldur einnig langt aftur í tímann og getur það varðað miklu. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja í sínu umdæmi. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningar- og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

Þau sveitarfélög sem ekki eiga aðild að héraðsskjalasafni, til dæmis Hafnarfjörður, Garðabær, sveitarfélög á Suðurnesjum og Snæfellsnesi, eru skilaskyld til Þjóðskjalasafns Íslands og íbúar þeirra þurfa því að sækja þjónustu til Reykjavíkur til að fá aðgang að skjölum sínum eða fræðast um sögu sveitarfélagsins. Menning og þekking flæðir úr héraði þar sem héraðsskjalasafns er vant, en eflist og eykst aftur á móti þar sem héraðsskjalasöfn starfa.

Héraðsskjalasöfnin tuttugu eiga með sér gott og öflugt samstarf. Félag héraðsskjalavarða á Íslandi var stofnað árið 2009 og það hefur staðið fyrir fræðslu fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna og sveitarfélaga, haldið málþing, sýningar og verið með margvísleg samstarfsverkefni. Eitt af samstarfsverkefnunum snerist um skjalavörslumál grunnskóla og hafa flestir grunnskólar landsins bætt skjalavörslu sína og afhent eða undirbúið afhendingu eldri skjala til viðkomandi héraðsskjalasafns.

Félagið hefur staðið fyrir þremur herferðum í söfnun skjalasafna. Það fyrsta var átak í söfnun skjala kvenfélaga í samstarfi félagsins og Kvenfélagasambands Íslands. Það skilaði góðum árangi og fjöldi skjalasafna barst héraðsskjalasöfnum meðan á átakinu stóð og eftir það. Næsta átak var að safna skjölum sóknarnefnda í samstarfi við embætti biskups Íslands og er það enn í gangi. Hið þriðja var átak í söfnun skjala íþróttafélaga um land allt í samstarfi við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og stóð það allt 100 ára afmælisár ÍSÍ í fyrra.

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2013 – opið hús