Þórður Guðmundsson formaður Sögufélags Kópavogs flettir í Kömpum í Kópavogi.
Í dag, 28. maí, kom úr prentun annað ritið í röð smárita útgefnum af Héraðsskjalasafni Kópavogs og Sögufélagi Kópavogs, og ber það titilinn Kampar í Kópavogi.
Höfundur þess er Friðþór Eydal, fyrrverandi upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Smáritið var búið til prentunar af Gunnari Marel Hinrikssyni skjalaverði við Héraðsskjalasafn Kópavogs.
Í ritinu er gerð grein fyrir herskálabyggðum breska og bandaríska hersins í núverandi landi Kópavogsbæjar á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Meðal þeirra má nefna æfingasvæðið á Sandskeiði, ratsjárstöðina Camp Catherine á Víghól og herskálahvefið Camp Wade á Hörðuvöllum undir Vatnsendahæð þar sem bjuggu um tíma nærri 900 hermenn. Margir fleiri kampar voru í Kópavogi á hernámsárunum og er gerð grein fyrir tilurð þeirra og tilgangi í ritinu. Fjölmargar ljósmyndir sem flestar hafa ekki birst áður eru í ritinu ásamt kortum sem sýna staðsetningu kampanna.
Ritið verður sent skuldlausum félögum í Sögufélagi Kópavogs án endurgjalds en einnig er hægt að nálgast það í Héraðsskjalasafni Kópavogs á afgreiðslutíma þess. Lausasöluverð er 1.500 kr.