Skjöl tengd forsetaframboði Jóhannesar Kr. Jóhannessonar (f. 14.06.1885 d. 22.11.1953) voru afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur í dag. Skjölin fundust meðal stórrar bókagjafar frá séra Birni Jónssyni bókasafnara til Bókasafns Akraness og var það Erla Dís Sigurjónsdóttir héraðsskjalavörður sem afhenti skjölin.
Jóhannes var fæddur á Sveinseyri í Tálknafjarðarhreppi 14. júní 1885. Foreldrar hans voru Jóhannes Þorgrímsson og Ragnheiður Kristín Gísladóttir. Kona Jóhannesar var Elísabet Davíðsdóttir (f. 20.08.1889 d. 5.12.1973) en þau skildu árið 1933. Þau hjónin áttu nokkur börn en Sigríður dóttir þeirra lést 7. desember 1925 og Ólafur sonur þeirra í maí 1929.
Jóhannes var mestan hluta ævi sinnar búsettur í Reykjavík en nam trésmíði í Kaupmannahöfn 1905-1906. Hann hafði frumkvæði að endurvakningu Trésmiðafélags Reykjavíkur árið 1917 og var virkur í starfsemi þess. Framan af 20. öld starfaði hann sem trésmiður og húsgagnasmiður og kom að byggingu fjölda húsa í miðbæ Reykjavíkur. Jóhannes var til dæmis fyrsti eigandi hússins að Laugavegi 64, byggt 1908, sem friðað var að utan af menntamálaráðherra árið 2011. Líklegt er að hann hafi teiknað húsið að Urðarstíg 12 sem byggt var 1921. Hann var einnig fyrsti eigandi hússins að Laugavegi 17 sem reist var 1908. Merki vinnu Jóhannesar sem trésmiðs má því enn sjá víða í miðbæ Reykjavíkur.


Í júní árið 1920 lenti Jóhannes í vinnuslysi þar sem hann fékk höfuðhögg. Hugsanlega var þar upphafið að veikindum sem hrjáðu hann til æviloka en þó er ekki hægt að útiloka að þau hafi átt sér lengri aðdraganda en Jóhannes hafði hlotið dóm fyrir skjalafals árið 1919.
Jóhannes var stofnandi Friðarfrelsisflokksins sem hélt nokkra fundi á árunum 1943 og 1944 um sjálfstæðismálið og forsetaframboð Jóhannesar. Jóhannes hugði á forsetaframboð 1944 og 1952 en komst ekki á kjörseðil. Hann stóð einnig fyrir útgáfu tímaritsins/bæklingsins Friðarboðinn og Vinarkveðjur þar sem hann birti klippimyndir, ljóð, vísur og innsend bréf. Árið 1952 fór fram rannsókn á vegum Dómsmálaráðuneytisins á Friðarboðanum og stuttu áður höfðu einhver eintök verið gerð upptæk þar eð þau þóttu of klúr til birtingar. Á sama tíma fór einnig fram rannsókn á meðmælendalista Jóhannesar vegna forsetakosninganna 1952 en þar voru ýmis stórmenni heimssögunnar og Jesús Kristur skráð sem meðmælendur. Endaði rannsókn þessi með því að Jóhannes fékk ekki að bjóða fram til forseta og lést hann réttu ári síðar. Jóhannes var litríkur persónuleiki í Reykjavík á sinni tíð og fengur er að skjölum tengdum honum.


Guðjón Indriðason deildarstjóri hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur og Erla Dís Sigurjónsdóttir héraðsskjalavörður Akraness við afhendingu skjalanna.

Skjölin sem afhent voru Borgarskjalasafni tengjast tilraun hans til forsetaframboðs 1944 hans og eru líklega gögn sem hann hefur sent frá sér, þar á meðal meðmælendalistar til útfyllingar, efni tengt hlutafjárútboði í Friðarfrelsisflokknum, vísur og bréf.
Fyrir var nokkuð til af skjölum tengdum ævi Jóhannesar á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Mikið af útgefið efni eftir hann, meðal annars Friðarboðinn og Vinarkveðjur, er til á svokölluðu Björnssafni á Bókasafni Akraness.
Borgarskjalaskjalasafn þakkar fyrir gjöfina. Að lokinni skráningu eru skjölin aðgengileg almenningi og fræðimönnum til skoðunar og skjalaskráin fer á vef safnsins, www.borgarskjalasafn.is.

AHP

Heimildir:
„Bæjarfréttir: Meiðsli.“ Vísir. 28. júní 1920.
Drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. 2008. Húsakönnun: Urðarstígur – Njarðargata – Bergstaðastræti – Baldursgata. Skýrsla nr. 143. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur. Sótt af: http://www.minjasafnreykjavikur.is/Portaldata/12/Resources/skjol/skyrslur/skyrsla_143.pdf
Dr. Gunni. „Furðumenn og gárungar fortíðar.“ Fréttablaðið. 20.02.2010. bls. 30, 32
Eggert Þór Bernharðsson og Helgi M. Sigurðsson. 1999. Trésmiðafélag Reykjavíkur 100 ára: 1899 – 10. desember – 1999. Reykjavík : Mál og mynd.
svg@mbl.is . „Gluggað í söguna.“ 28. febrúar 2005. Fasteignablaðið. Sótt af: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1004284/?item_num=154&dags=2005-02-28.
„Klapparstígur 11 rís úr öskustónni.“ Sótt af: http://www.visir.is/klapparstigur-11-ris-ur-oskustonni/article/2004410250313
Jóhannes Kr. Jóhannesson. „Athugasemd.“ Vísir. 1. júlí 1920 bls. 2.
Manntal Reykjavíkur. Varðveitt á Borgarskjalasafni.
Minjastofnun Íslands. Friðun Laugavegar 64 í Reykjavík. Sótt af http://www.husafridun.is/starfsemi/frettir/nr/913.
„Rannsókn á aðild að ritum og meðmælalistum Jóh. Kr. Jóhannessonar.“ Tíminn. 21. október 1952 bls. 1.
„Sr. Björn gefur Akurnesingum einkabókasafn sitt.“ Skessuhorn. 17. mars 2011. Sótt af:http://www.visir.is/sr.-bjorn-gefur-akurnesingum-einkabokasafn-sitt/article/2011303179961.
Af timarit.is ýmsar tilkynningar og auglýsingar úr Morgunblaðinu, Alþýðublaðinu, Vísi, Tímanum. Vitanum og Þjóðviljanum.
Ýmis skjöl úr skjalasöfnum Reykjavíkurborgar. Varðveitt á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
„Mánudaginn 28. júlí 1919. Nr. 28/1919. Réttvísin gegn Jóhannesi Kr. Jóhannessyni.“ Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum. 10. árgangur 1920, bls. 769. Sótt af: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3529610.

Skjöl Jóhannesar Kr. Jóhannessonar á Borgarskjalasafni