Gunnar Svavarsson og Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður Kópavogs

Mánudaginn 18. febrúar afhenti Gunnar Svavarsson stjórnarmaður í Sögufélagi Kópavogs skjalasafninu safn Almanaks hins íslenska þjóðvinafélags frá upphafi 1874 til ársins 2004, um 1,5 hillumetrar. Bækurnar átti móðir Gunnars, Þorgerður Sigurgeirsdóttir (f. 1928).
Þorgerður starfaði lengi hjá almanakinu og samdi greinarnar „Efnisyfirlit Íslandsalmanaks 1837-1967 og Þjóðvinafélagsalmanaks 1875-1967“ sem birtist í almanakinu 1968 og „Skyggnzt í sögu almanaksins“ sem birtist í almanakinu 1969. Síðarnefnda greinin er aðgengileg á heimasíðunni www.almanak.hi.is/saga.htmlmeð eftirmála Þorgerðar dags. 14.12. 2012.

Handbókasafn skjalasafnsins eflist við þessa góðu gjöf og er þeim mæðginum þökkuð rausnarsemin. Héraðsskjalasafn Kópavogs er sífellt á höttunum eftir skjölum einstaklinga, félaga og fyrirtækja sem lifað hafa og starfað í Kópavogi sem og viðbótum við þær handbækur sem gestum safnsins standa til boða til notkunar á lestrarsal þess. Því eru gjafir sem þessar ómetanlegt framlag til starfsemi safnsins.

GMH

Héraðsskjalasafni Kópavogs berst góð gjöf