Gestir fylgjast með sýningu Sögufélags Kópavogs á gömlum myndum úr Kópavogi.

Borgarskjalasafnið og Héraðsskjalasafn Kópavogs höfðu opið milli kl. 19 og 24 föstudagskvöldið 8. febrúar sl. í tilefni af Safnanótt. Um 170 manns sóttu Héraðsskjalasafn Kópavogs heim og Borgarskjalasafnið 381.


Gestir bera kennsl á myndefni ljósmynda í Borgarskjalasafni.

Í Kópavogi var almenn ánægja meðal gesta og dvaldist þeim lengi við myndasýningu Sögufélagsins, sýningu á skjölum íþróttafélaga í Kópavogi, fylgdust með og telfdu við upprennandi skáksnillinga frá skákdeild Breiðabliks og fóru í skoðunarferðir um nýtt húsnæði safnsins.

Vegna flutninga Héraðsskjalasafns Kópavogs í fyrra gat það ekki tekið þátt í Safnanótt 2012. Af samanburði við aðsókn á Safnanótt árin 2010 og 2011 er augljóst að aukinn sýnileiki safnsins í nýju húsnæði, bætt aðstaða til sýningahalds og á allan hátt hentugra umhverfi auk góðs samstarfs við Sögufélag Kópavogs hefur aukið áhuga bæjarbúa á Héraðsskjalasafninu og þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Borgarskjalasafn hefur staðið í átaki í söfnun skjala íþróttafélagi í samstarfi við önnur héraðsskjalasöfn og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ og því þótti við hæfi að leggja áherslu á íþróttir í dagskrá safnsins. Í sýningakössum safnsins var sýnt brot af þeim fjársjóði sem hefur borist frá íþróttafélögum í Reykjavík og á tjaldi í fundarherbergi var varpað upp íþróttaljósmyndum frá ýmsum tímum. Borgarskjalasafnið hefur nú skannað allar ljósmyndir sem hafa borist með skjölum íþróttafélaga og eru það yfir 6.000 ljósmyndir. Safnið hefur leitað eftir aðstoð almennings á Facebook við að þekkja fólk og atburði á ljósmyndunum, enda eru þær meira virði þegar slíkar skráningar liggja fyrir. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg og sú var einnig raunin á Safnanótt þegar biðlað var til almennings um að setjast niður og aðstoða starfsmann við að þekkja fólk á myndum. Komust færri að en vildu. Barnahornið var vinsælt og margir tóku þátt í safnanæturleik og getraun Borgarskjalasafns eða tylltu sér niður og skoðuðu úrklippubækur fyrri ára um íþróttir.

Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur flutti erindi um dauðann í Borgarskjalasafni og var Sigurbjörn innilegur eins og honum einum er lagið en á óvart kom hvað erindið var á köflum skemmtilegt. Björn Hróarsson, jarðfræðingur og rithöfundur tók við af honum og flutti í myrkrinu nokkrar krassandi draugasögur úr eigin lífi. Fór um suma við sögurnar enda voru þetta sögur úr samtímanum. Björn gaf út draugasögubókina Narfa á síðasta ári.  Jón Þór Sigurleifsson, gítarleikari lauk dagskrá safnsins með einleik á átta strengja rafgítar, þar sem hann meðal annars frumflutti einleiksverk fyrir átta strengja rafgítar. Mikinn fjöldi kom að hlýða á leik hans sem var undurfagur og áhrifamikinn en drungalegur á köflum.

Þeir fimm starfsmenn Borgarskjalasafns sem voru að störfum voru ánægðir með kvöldið og þann mikla áhuga sem almenningur sýndi safninu og dagskrá þess.
Þrír starfsmenn Héraðsskjalasafns Kópavogs stóðu vaktina þar og höfðu svipaða sögu að segja.


Menntaskólakennararnir Adolf Petersen (t.v.) og Bjarni Ólafsson (t.h.) tefla við skákmenn framtíðarinnar í Héraðsskjalasafni Kópavogs.


Gluggað í sýningarkassa á Borgarskjalasafni.


Hlýtt á Jón Þór Sigurleifsson gítarleikara flytja einleik á átta strengja rafgítar í Borgarskjalasafni.

Vel heppnuð safnanótt