Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu hefst í kvöld, föstudaginn 8. febrúar 2013. Hún er árviss viðburður og þáttur í Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar.

Af héraðsskjalasöfnunum taka Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 3. hæð og Héraðsskjalasafn Kópavogs, Digranesvegi 7,  þátt í dagskrá Safnanætur.

Opið hús verður í báðum skjalasöfnunum. Áhersla verður lögð á íþróttir í dagskránni hjá þeim en á afmælisári Íþróttasambands Íslands hefur það í samvinnu við Félag héraðsskjalavarða staðið fyrir átaki til varðveislu skjala er varða íþróttafélög og íþróttaiðkun og verður árangur þess kynntur nú í febrúar og er þetta liður í því.

Á opnu húsi Borgarskjalasafnsins verða haldnir fyrirlestrar, tónlistaratriði, sýning á skjölum, ljósmyndum og munum tengdum íþróttasögu Reykjavíkur  með úrklippum úr dagblöðum um íþróttir og efni tengdu íþróttafélaginu Víkingi, Laugardalsvelli, mótorhjólaklúbbnum Eldingu, Melavelli, Trukkaklúbbi TBR, Íþróttabandalagi Reykjavíkur og fleiru. Borgarskjalasafnið leitar til almennings um að bera kennsl á fólk og atburði á íþróttaljósmyndum. Barnahornið verður á sínum stað.

Á opnu húsi Héraðsskjalasafns Kópavogs verða hin nýju húsakynni sem það flutti í fyrir tæpu ári sýnd gestum. Þar verður sýning á skjölum úr íþróttastarfi í Kópavogi. Félagar úr tafldeild Breiðabliks bjóða gestum upp í skák. Félagar úr Sögufélagi Kópavogs munu varpa upp gömlum myndum og ræða um sögu bæjarins.

Heimasíða safnanætur 2013

Safnanótt 2013