Í dag er haldinn hátíðlegur Dagur gagnaverndar 28. janúar 2013 á vegum Evrópuráðsins. Víða um heim er haldið upp á daginn sem „Einkalífsdaginn“ (Privacy Day).
Um hátíðarhöld fyrri ára á þessum degi.

Heimasíða Evrópuráðsins um gagnavernd.

Dagurinn er haldinn hátíðlegur í tilefni af undirritun Sáttmálans um vernd einstaklinga gagnvart vélrænni vinnslu persónuupplýsinga í Strassborg 28. janúar 1981.

Sáttmálinn hefur að markmiði að tryggja að virtur sé réttur og grunnréttindi sérhvers einstaklings, óháð þjóðerni og búsetu hvað áhrærir vélræna vinnslu persónuupplýsinga er hann varðar þ.e. gagnavernd.

Slík vernd snýst að jafnaði ekki um eyðingu þeirra upplýsinga sem um ræðir, heldur trygga og ábyrga vörslu og meðferð þeirra.
Hægt er að beita pappírstæturum og öðrum verkfærum til gagnaeyðingar á þann hátt að brotið sé gegn þessum tiltekna sáttmála, ekki síður en að stuðla að því að efna hann.

Vert er að minna á að með eyðingu persónuupplýsinga er hægt að brjóta gróflega á réttindum þeirra einstaklinga sem eiga hlut að máli, ekki síður en með annarri óábyrgri meðferð slíkra upplýsinga. Minnt skal á að eyðing persónuupplýsinga hefur verið mikilvægur þáttur í glæpastarfsemi ýmiskonar, þjóðernisofsóknum og þjóðarmorðum.

Áður en skjölum er eytt, hvort heldur á rafrænu formi eða útprentuðu, ætti að ganga úr skugga um að lögvarið öryggi og réttindi einstaklinga séu ekki fyrir borð borin og löggjöf um skjalavörslu sé virt í hvívetna.
Óheimilt er að eyða opinberu skjali nema í samræmi við lög nr. 66/1985. Með ólöglegri eyðingu opinberra skjala er unnið tjón á eigum hins opinbera, slík skemmdarverkastarfsemi er hegningalagabrot sem getur varðað sektum og fangelsi.

Héraðsskjalasöfnunum er umhugað um að vel sé gætt að persónuvernd og gagnaöryggi við skjalavörslu sveitarfélaganna.
Fróðleikur um einkalíf og persónuöryggi á vef Félags héraðsskjalavarða.

Dagur gagnaverndar