Drög að reglugerð hjá Evrópusambandinu um persónuupplýsingar miðar að því að eyða eða gera ópersónugreinanleg gögn til að koma í veg fyrir nýtingu þeirra í öðrum tilgangi en upphaflegum, þar á meðal við sögulegar rannsóknir.

Félag franskra skjalavarða hefur  sett fram  fréttatilkynningu á vefsíðu sinni 27. febrúar 2013: Hver verður arfleifð Evrópu komandi tíma á grundvelli réttarins til að falla í gleymsku?

Þar er vakin  athygli á því að vorið 2013 mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópuþingið samþykkja reglugerð sem mun skylda alla opinbera aðila og fyrirtæki til að eyða eða tryggja nafnleysi gagna þegar því embættisferli eða meðferð sem þau mynduðust við lýkur eða stuttu síðar. Þetta verður gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að aðsópsmiklum fyrirtækjum á internetinu (Google, Facebook o.fl.)  veði heimilt að varðveita og nýta persónuupplýsingar.

Bent er á að í reglugerðinni verður fjallað um persónuupplýsingar á hverskyns formi, rafrænu eða pappír. Þetta mun leggja aðildarríkjunum á herðar að setja tafarlaust innlend lög um þetta efni.

Tekin eru dæmi um hugsanlegar afleiðingar reglugerðarinnar: Þú lýkur námi og skólinn eða háskólinn mun eyða umsókn þinni. Þú selur fasteign og fasteignaskrá mun eyða ummerkjum um eignarhald þitt. Þú lýkur störfum hjá fyrirtæki/stofnun og upplýsingar um þig verða fjarlægðar. Til að tryggja það að gögn um mann varðveitist, verður ekki lengur treyst á opinbera þjónustu eða vinnuveitendur.

Tekið er undir að ljóst sé að berjast verður með öllum tiltækum ráðum við endurnýtingu persónuupplýsinga í viðskiptalegum tilgangi án vitundar almennings, en slík endurnýting hafi reynst mun auðveldari með tilkomu tölvutækninnar. Við kerfisbundna eyðingu eða tryggingu nafnleysis gagna verður þó að gæta þess að kasta ekki barninu út með baðvatninu. Standa verður vörð um skjalavörslustofnanir  sem þegar veita arfleifð okkar örugga geymslu og tryggja með því borgaraleg réttindi, allsherjarreglu og almannaheill. Verði það ekki gert blasir við upplausn og almennt minnisleysi.

Franska ríkisstjórnin er sögð undirbúa viðbrögð við þessu máli sem hingað til hafi ekki verið í almennri umræðu. Félag franskra skjalavarða, en innan þess eru yfir 1600 sérfræðingar í skjalavörslu, mun vekja athygli á og vara við merkjum um andlýðræðislegar afleiðingar slíkra reglna.

Vísað er til Alþjóðlegu skjalayfirlýsingarinnar frá 2010 um mikilvægi og hlutverk skjalasafna. http://www.ica.org/6573/reference-documents/universal-declaration-on-archives.html

Það sé fráleitt að leggja sömu skyldur annarsvegar á stofnanir sem varðveita persónuupplýsingar í viðskiptalegum tilgangi og hinsvegar á stofnanir sem varðveita sögulega arfleifð sem er órofa hluti menningar samfélagsins og á innviði opinberrar þjónustu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er talin horfa framhjá tilvist sérhæfðrar þjónustu á sviði skjala- og gagnavörslu, þjónustu sem samanstandi af sérfræðingum sem lúti ströngum siðareglum og bera mikla ábyrgð.  Skjalaverðir, varðveislumenn gagna, séu færir um að skipuleggja söfnun og varðveislu upplýsinga á öruggan hátt, með það fyrir augum að tryggja heild þeirra og áreiðanleika. Þeir eru færir um að stýra aðgangi að gögnum miðað við réttindi hvers og eins á grundvelli laga.

Evrópa megi ekki banna geymslu gagna, en verði að tryggja vernd þeirra og aðgengisstýringu. Tryggja verði borgurunum tækni, fjármagn og mannskap, þar með talið hæfa sérfræðinga, til að tryggja rétta meðhöndlun þessara gagna.

Til að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón af þessari ákvörðun biður Franska skjalavarðafélagið framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að fresta samþykkt þessarar reglugerðar í því skyni að dýpka umræðuna og hvetur alla þá aðila sem málið varðar í Frakklandi og öðrum Evrópulöndum að setja fram slíka beiðni.

Skýrsludrög um málið hjá Evrópuþinginu:
http://www.europarl.europa.eu/meetdocs/2009_2014/documents/libe/pr/922/922387/922387en.pdf

Tjón á arfleið Evrópu í nafni réttar til að falla í gleymsku