Bygging Kópavogskirkju. T.h. Ragnar Emilsson arkitekt kirkjunnar t.v. Siggeir Ólafsson byggingarmeistari kirkjunnar.
Í dag voru 12 ár síðan Héraðsskjalasafn Kópavogs var stofnað. Var af því tilefni haft sérstaklega opið hús að Digranesvegi 7, heitt á könnunni og jólasmákökur. Margt góðra gesta sótti skjalasafnið heim m.a. formaður bæjarráðs Kópavogs, Rannveig Ásgeirsdóttir.
Fyrstu eintök nýs smárits, hins fyrsta í smáritaritröð Sögufélags Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs, birtust á þessu opna húsi. Þetta er rit Eyþórs Sigmundssonar Minningar af Kársnesi. Upphaflega átti ritið að vera kafli í fyrirhugaðri bók Helgu Sigurjónsdóttur kennara um Vesturbæ Kópavogs. Árið 2002 ritstýrði Helga og gaf út safnritið Sveitin mín Kópavogur: frásagnir bekkjarsystkina, en það fjallaði um Austurbæ Kópavogs. Helga lést í fyrra og auðnaðist ekki að ljúka verkinu um Vesturbæinn, en útgáfa smáritsins er helguð minningu hennar.
Í dag var einnig opnuð sýning í Héraðsskjalasafni Kópavogs í tilefni af 50 ára vígsluafmæli Kópavogskirkju og mun hún standa fram í janúar. Kópavogskirkja skipar sérstakan sess í hugum Kópavogsbúa, ekki aðeins sem guðshús heldur einnig sem tákn bæjarins. Byggingarsaga hennar er um margt sérstök. Bogar hennar voru teknir upp í merki Kópavogsbæjar þremur árum eftir vígsluna.
Aðrar sýningar í tilefni vígsluafmælisins opna í safnaðarheimili Kársnessafnaðar, Borgum laugardaginn 15. desember, sögusýning í kapellu safnaðarheimilisins með nokkrum helgigripum Kópavogskirkju og sýning í safnaðarsal á ljósmyndum Guðmundar Ingólfssonar af verkum Wilhelms Beckmanns myndskera. Um Beckmann var einmitt fjallað í grein Hrafns Andrésar Harðarsonar bæjarbókavarðar Kópavogs í Ársriti Héraðsskjalasafns Kópavogs 2006-2007. Sunnudaginn 16. september n.k. verður hátíðarmessa í kirkjunni og hátíðartónleikar Skólakórs Kársness undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur um kvöldið.