Flóðið mikla í Ölfusár 1948. Tryggvaskáli umflotinn vatni. Myndina tók Arnold Pétursson.
Fyrsta desember opnar aðventusýning Héraðsskjalasafns Árnesinga. Sami háttur er hafður á nú og síðustu tvö ár og sýndar ljósmyndir í vörslu skjalasafnsins á 2×3 metra tjaldi. Sýningin er utandyra, í glugga Ráðhúss Árborgar, áður hús Kaupfélags Árnesinga. Á sýningunni eru rúmlega 400 ljósmyndir sem starfsmenn skjalasafnsins hafa skannað og skráð á undanförnum tveimur árum. Átaksverkefni um söfnun og ljósmyndum innan sýslunnar hófst 2010 þegar Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari fór um sýsluna fyrir hönd héraðsskjalasafnsins. Frá 2011 hefur Menningarráð Suðurlands, Sveitarfélagið Árborg og Alþingi stutt myndarlega við verkefnið. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja skjalasafna, Héraðsskjalasafns Austfirðinga á Egilsstöðum, Hérðasskjalasafns Skagfirðinga á Sauðárkróki og Hérðasskjalasafns Árnesinga á Selfossi. Á skjalasöfnunum þremur eru sex stöðugildi eyrnamerkt söfnun, skönnun, skráningu og miðlun á ljósmyndum.Stórar ljósmyndasöfn hafa líka borist skjalasafninu á þessu ári en ætla má að fjöldi mynd sé nú um 180.000.
Þær myndir eru eru til sýnis eru aðeins brot af þeim fjölmörgu ljósmyndum sem búið er að skanna og skrá. Sýningin opnar kl. 16:00 fyrsta desember og er „opin“ milli 16 og 23 á hverjum degi fram til jóla. Myndirnar eiga það sameiginlegt að vera flestar teknar innan sýslumarkana og þá eru flestir ljósmyndaranna Sunnlendingar. Á sýningunni getur m.a. að líta myndir Önnu og Áslaugar Magnúsardætra, Ellu dönsku Jónasson, Eyjólfs Eyjólfssonar skósmiðs, Gísla Bjarnasonar, bræðranna Herberts og Gunnars Gränz, Jóhanns Þórs Sigurbergssonar, Rögnu Hermannsdóttur, Tómasar Jónssonar, Sigurðar Jónssonar auk ýmissa annarra.
Malling Andresen mjólkurfræðingur bregður á leik á vespu Jóhanns Þórs ljósmyndara. Henschel bíllinn frá MBF var ekki bara mjólkurbíll. Mjólkurbúið og Kaupfélagið slógu tvær flugur í einu höggi og sáu líka að hluta til um fólksflutninga og vöruflutninga á bílunum sem reyndust vel.
Undirbúningur að opnun vefsíðu myndasetur.is er á lokastigum en þar verða ljósmyndirnar gerðar aðgengilegar almenningi og sveitarfélögum. Verið er að ganga frá myndum til birtingar á vefnum og þá hönnun á útliti og leitarmöguleikum langt komin. Menningarráð Suðurlands veitti styrk til þessa þáttar verkefnisins nú á árinu og vonumst við til þess að vefurinn verði opnaður almenningi nú í lok ársins.
ÞTM