Nú hefur frumvarp til upplýsingalaga verið lagt fram í þriðja sinn. Það hefur tekið nokkrum breytingum frá fyrri gerðum en þó ekki stórvægilegum.
Áður hafa héraðsskjalaverðir gert athugasemdir við forvera þess eins og fram hefur komið hér:
Um frumvarp til upplýsingalaga

Héraðsskjalavörður Kópavogs hefur enn ritað umsögn við það og snúa þær að mestu að skjalavörslu, þ.e. þeim breytingum sem ætlunin er að verði á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands um leið og upplýsingalög ganga í gildi.
Umsögn héraðsskjalavarðar Kópavogs við frumvarp til upplýsingalaga nóvember 2012.
Bréf sem umsögnin fylgdi.

Athugasemdir eru gerðar við að kveðið sé á um aðgengi opinberra skjala og skráningu á þeim í sérlagabálki um opinberar skjalavörslustofnanir (Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasöfn). Betur þykir fara á því að hafa þetta í meginlagabálki eins og upplýsingalögum. Bent er á að engin rök séu fyrir því að hafa mismun á aðgengi að upplýsingum (skjölum) eftir því hvort þau eru yngri eða eldri en þrítug að aldri.

Refsiákvæði eru aðeins í frumvarpinu við opinberun leynilegra skjala sem takmarkaður aðgangur hefur verið veittur að vegna rannsókna. Eðlilegt væri að einnig séu refsiákvæði við misbresti á skráningu eða undanskotum á opinberum skjölum t.d. ólöglegri eyðingu þeirra sem leiði til ólögmætrar upplýsingaleyndar.

Því er haldið fram í greinargerð með frumvarpinu að með því sé lögð til víkkun á því hvaða aðilar séu skilaskyldir á skjölum til Þjóðskjalasafns Íslands. Í umsögn héraðsskjalavarðar Kópavogs er bent á að þetta sé rangt. Hingað til hafa „fyrirtæki í eigu ríkisins“ verið skilaskyld um skjöl sín til Þjóðskjalasafns (og til samræmis fyrirtæki í eigu sveitarfélaga til  héraðsskjalasafna) en nú á að takmarka skilaskyldu til Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna  við upplýsingarétt í upplýsingalögum. Með þessu  er stuðlað að glötun ómetanlegra skjala til þjóðarsögunnar.

Í umsögn héraðsskjalavarðarins var þess að vísu ekki getið, enda sjálfsagt mál sem grundvallarrök opinberrar skjalavörslu, að öryggi ríkis og sveitarfélaga er háð vandaðri vörslu allra þeirra skjala sem koma starfsemi þeirra við, óháð aðgengi almennings.

Í bréfi sem umsögnin fylgir er bent á að helsta vitneskja um óreiðu og misbresti í skjalavörslu hins opinbera sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og álitsgerð frá Forsætisráðuneytinu séu skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og skýrsla um vistheimilamál. Ekki sé yfirsýn til yfir skjalavörslu hins opinbera og opinber skjalavarsla á Íslandi sé í reynd eftirlitslaus þrátt fyrir lagaákvæði um annað.

Fróðlegt er að sjá allar umsagnir um frumvarpið. Þarna má einnig glöggva sig á frumvarpstextanum og greinargerð er honum fylgir.

Viðbót 12. desember 2012:
Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður hefur einnig ritað umsögn við frumvarpið. M.a. gerir hún athugasemdir við að gera aðgengi að opinberum skjölum tvískipt eftir aldri skjalanna í tvennum lögum sem ekki eru samhljóða, og einnig að upp á vanti víða í frumvarpinu að héraðsskjalasöfn séu nefnd eins og viðeigandi væri.

Frumvarp til upplýsingalaga lagt fram að nýju