Neðri-Sandvík í Borgarnesi. Ljósmynd sem sýnir svæðið eftir að búið er að reisa braggana. Úr albúmi Jóns Guðmundssonar Hundastapa.
Ungmennafélagið Skallagrímur hefur afhent skjöl á Héraðsskjalasafn Borgfirðinga. Hér fyrir neðan er stutt umfjöllun um draum félagsins að fá íþróttavöll.
Að kvöldi 19. september 1940 var sá langþráði draumur félaga Ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi að fá íþróttavöll alveg við að verða loksins að veruleika. Þetta átti að verða grasvöllur, sá fyrsti hér á landi.
Um þetta má lesa í ritgerð þar sem Friðrik Þorvaldsson hafnarvörður og stjórnarmaður í ungmennafélaginu skrifar eftirfarandi:
[Um kvöldið] hafði hópur ungmennafélaga unnið við að tyrfa knattspyrnuvöllinn í Neðri-Sandvík en aðrir unnið við að rista og flytja þökur ofan frá Hamri. Svo vel hafði verkið sótzt undanfarin kvöld, að ákveðið var að sækja síðustu þökurnar næstu kvöldstund, enda liðið fram á nótt og aðeins fáeinir fermetrar óþaktir. Þannig mætti njóta síðustu handtakanna án strangasta álags, og að verki loknu mætti fá hvíld til að hugleiða önnur aðkallandi verkefni.
En þessi áform urðu að engu. Næsta dag var Friðrik snemma á fótum. Von var á Eldborginni með morgunflóðinu en hún var að koma úr söluferð frá Englandi. Friðrik skrifar:
Ég var því snemma á ferli og gladdist mjög er ég sá skip utan Miðfjarðarskers. Ekki hafði ég lengi horft er mér fannst sem skipið bæri hraðar að en ég átti að venjast. Þetta reyndist vera herflutningaskip og er það kenndi bryggjunnar þustu frá borði fans vopnaðra manna. En á meðan hermennirnir hnöppuðust saman á bryggjunni og sötruðu úr stórum föntum te, sem þeim var borið í einhverskonar keröldum, nálgaðist sú stund, sem varð erfið, bæði fyrir mig og ungmennafélagið. Herstjórnin hafði sjáanlega aflað sér upplýsinga því óðar en varði krafðist hún að fá til sinna þarfa samkomuhúsið og íþróttavöllinn.
Þrátt fyrir mikla óánægju ungmennafélaga létu þeir undan kröfum breska hersins og síðustu grasþökurnar voru því aldrei sóttar og enginn knattspyrnuleikur var háður á þessum grasvelli. Risu þarna síðan upp herbúðir miklar. Þegar setuliðið fór undir stríðslok fékk ungmennafélagið íþróttasvæðið afhent á ný. Var þá svæðið í slæmu ásigkomulagi og kostaði mikla vinnu að ryðja það á ný. Gerði félagið þarna síðan malarvöll sem notaður var til knattspyrnu- og íþróttaæfinga alveg þar til nýi íþróttavöllurinn hjá Íþróttahúsinu var tekinn í notkun. Nú stendur Menntaskóli Borgfirðinga á svæðinu.
Heimildir:
Jón Helgason. Hundrað ár í Borgarnesi. 1967. Bls. 301-302.
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. „Ungmennafélagið Skallagrímur í Borgarnesi“, EF 30 27-2. Ritgerð skrifuð í fyrirhugað afmælisrit UMF Skallagríms á 60 ára afmæli þess eftir Friðrik Þorvaldsson.