her_akur_lettir_1

Ungir knapar á krakkadegi Léttis 1973.

Hestaíþróttafélög er fjölmörg innan vébanda ÍSÍ. Í tengslum við átaksverkefni Félags héraðsskjalavarða á Íslandi og ÍSÍ, sem fagnar 100 ára afmæli á þessu ári, hafa nokkur hestamannafélög afhent skjöl á héraðsskjalasöfnin til viðbótar við þau skjöl sem þegar eru í vörslu skjalasafnanna. Skjöl Léttis á Akureyri eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Framanaf var barna- og unglingastarf innan Léttis ekki með reglulegum hætti en á aðalfundi 1989 var skipað unglingaráð, sem falið var að skipuleggja þennan þátt félagsstarfsins. Stofnuð var unglingadeild fyrir aldurshópinn 5–16 ára og reynt að finna sem flesta fleti á starfinu svo krakkar á öllum aldri fyndu eitthvað við sitt hæfi. Á þeim tíma var óvíða komið unglingastarf hjá öðrum hestamannafélögum og fátt sem hægt var að hafa til hliðsjónar í þeim efnum.

Reiðnámskeið hafa síðan verið fastir liðir í starfinu, bæði á sumrin og á veturna. Í boði eru bæði námskeið fyrir byrjendur og svo námskeið fyrir krakka sem hafa einhverja reynslu en þá er farið í flóknari þætti, s.s. um reglur á mótum. Unglingadeildin hefur oft staðið fyrir ferðalögum, bæði reiðtúrum með grillveislum og rútferðum s.s. í Laufskálarétt.

Fyrsta mótið sem unglingadeildin stóð fyrir var haldið 11. júní 1989 og þótti takast mjög vel. Mun það hafa verið í fyrsta skipti sem sérstakt mót var haldið fyrir unglinga en myndband frá því móti var notað við kynningar á unglingastarfi hjá hestamannafélögum víðsvegar um landið.

Sýningar hafa líka verið snar þáttur í starfsemi unglingadeildarinnar enda hafa þær þann kost að nær allir krakkar geta tekið þátt í þeim, hvar svo sem þau eru stödd í reiðlistinni.

Loks er það félagshesthúsið Fjöðrin en húsið var keypt árið 1990 með það að markmiði að börn og unglingar gætu haft þar hesta ef þau ættu ekki kost á plássi annars staðar. Áhugasamir krakkar gátu fengið hest að láni en krakkarnir skiptu á milli sín hirðingu hrossanna, undir eftirliti húsvarðar. Núna hefur þessi þáttur unglingastarfsins fallið niður og húsið verið selt.

Heimild: F-128/93. Hestamannafélagið Léttir. Guðrún Hallgrímsdóttir: Æskulýðsstarf hjá Létti.

Hestamannafélagið Léttir á Akureyri