her_aust_skaft_mani

Enn leitum við í kistu ungmennafélaga í tengslum við 100 ára afmæli ÍSÍ og átak íþróttahreyfingarinnar og Félags héraðsskjalavarða um söfnun á skjölum íþróttafélaga.

Að þessu sinni drepum við niður fæti í Austur-Skaftafellssýslu í skjölum sem varðveitt eru á Héraðsskjalasafni Austur-Skaftfellinga á Höfn. Á fyrsta áratug tuttugustu aldar voru ungmennafélög stofnuð í hverjum hreppi í sýslunni. Eins og félög um allt land stóð Ungmennafélagið Máni í Nesjum að útgáfu á blaði sem fór á mili bæja og var lesið á fundum félagisns. Eftirfarandi texti er eftir Bjarna Guðmundsson og birtist í Vísi blaði Umf Mána í janúar 1909:

Íþróttir

…Hver ungur maður ætti að læra að glíma, og temja sér þegar í byrjun, að glíma vel og hugsa meira um að sýna listinni sóma með lipurð og fimleik, heldur en misþyrma henni með sviftingum og ofurkappi. Sá maður sem lærir að glíma, og vill læra að glíma fallega, má ekki eingöngu hafa það augnamið að standa sem fastast, heldur sýna list í að verjast mótstöðumanni sínum með lipurð, og kæra sig minna um þótt hann falli, því þótt mótstöðumaðurinn haldi velli er það ekki alltaf sönnun fyrir því að hann sé listfengari glímumaður en sá sem liggur.

Mér er óhætt að fullyrða að hver sá glímumaður, sem aðeins hefir það markmið fyrir augum að standa og fella mótstöðumann sinn, án tillits til listarinnar verður aldrei glímumaður, hvað oft sem hann æfir sig. Eins er með hvaða íþrótt sem er, að víðast þarf lipurð, og alltaf þurfa menn að hafa í huga að fegurðartilfinning fyrir því, að íþróttin sé leikin af list. Að þessu leyti eiga allar listir sammerkt.

Ungmennafélagið Máni á Nesjum