Á árlegu allsherjarþingi Alþjóða skjalaráðsins (International Council on Archives – ICA) 10. september sl. var texti Grundvallarreglna um aðgengi að skjalasöfnum samþykktur einróma. Þetta þykir merkur áfangi í þágu gagnsæis og eflingar upplýsingaréttar.
Aðgengi að skjalasöfnum felur í sér að geta nálgast skjöl til að glöggva sig á þeim á grundvelli lögverndaðs réttar og að fyrir hendi séu hjálpartæki við leit.
Frá árinu 1994 hefur Alþjóða skjalaráðið gefið út fjóra staðla um lýsingu/skráningu á skjalasöfnum: ISAD(G) árið 1994, ISAAR (CPF) árið 1996, ISDF árið 2008 og ISDIAH árið 2008 (Sjá þá hér). Þessir staðlar ná til hjálpartækja við leit, annars af tveimur lykilþáttum aðgengis að skjölum; þeir hafa haft mótandi áhrif á það hvernig skjalasöfn eru skráð. Yfirlýsingin um Grundvallarreglur um aðgengi að skjalasöfnum hefur hinn lykilþáttinn að viðfangsefni: hinn lögverndaða rétt til að glöggva sig á skjölum. Grundvallarreglurnar samanstanda af 10 grundvallaratriðum með skýringargrein við hvert þeirra. Saman mynda grundvallaratriðin og skýringargreinarnar yfirlýsingu um fagleg vinnubrögð. Grundvallarreglunum fylgir stutt orðasafn.
Sjá nánar um Grundvallarreglurnar á heimasíðu Alþjóða skjalaráðsins.