Civitas veri eða Borgríki sannleikans, mynd af titilsíðu hins útópíska táknmyndakvæðis 1609 sem ort var af Frakkanum Bartolomeo Del Bene (1515-1595).
Jóhanna Gunnlaugsdóttir prófessor hélt 27. júní 2012 erindi á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um nýlega könnun um viðhorf fólks til upplýsingagjafar stjórnvalda (ríkisstjórnar, ráðuneyta, sveitarfélaga og stofnana þeirra, þjónustustofnana á vegum ríkisins og eftirlitsstofnana á vegum ríkisins).
Markmiðið var að kanna hug almennings til upplýsingagjafar þ.e. hvort svarendur teldu stjórnvöld leyna mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning og varða almannahagsmuni (umhverfis-, velferðar-, heilbrigðis- og menntamál) svo og opinber útgjöld, þ.e. úthlutun á almannafé (styrki og fjárveitingar, verksamninga til opinberra verkefna o.þ.h.).
Kveðið er á um upplýsingarétt almennings í lögum. Stjórnvöldum ber að virða þennan rétt sem takmarkast þó að nokkru vegna einka- og almannahagsmuna. Jóhanna benti á dæmi þess að upplýsingarétturinn hafi ekki verið virtur m.a. með vísan til Rannsóknarskýrslu Alþingis frá 2010. Í könnun Capacent Gallup (Þjóðarpúls Gallup frá mars 2012, traust til stofnana) kemur m.a. fram að einungis 10% svarenda ber mikið traust til Alþingis og 15% til borgarstjórnar Reykjavíkur. Skv. niðurstöðum könnunar Jóhönnu töldu alls 90% svarenda að ríkisstjórnin leyni almenningi upplýsingum sem varða almannahagsmuni oft eða stundum, 88% ráðuneytin, 78% sveitarfélög og stofnanir þeirra, 76% þjónustustofnanir á vegum ríkisins og 80% eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins.
Frétt Morgunblaðsins um fyrirlesturinn
Þetta er alvarleg staða fyrir stjórnvöld í landinu og vekur upp spurningar um skjalavörslu þeirra og meðvitund almennings um réttindi og skyldur um opinber skjöl. Tilfinning er eitt, vitneskja annað og afar mikilvægt að gagnsæi og upplýsing ríki um meðferð opinberra skjala. Stjórnvöld ættu ekki að vera ein til frásagnar um þessa meðferð sína, en um leið þarf að tryggja að almenningi sé ljóst og auðveldað að glöggva sig á hvernig opinberri skjalavörslu er háttað.
Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasöfn eru lykilstofnanir í þessum málum, þar sem þeim ber skv. gildandi lögum um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985 (4. grein 2. töluliður) að hafa eftirlit með skjalavörslu stjórnvalda og tryggja aðgengi að skjölum þeirra eftir að þau hafa verið afhent þangað til varðveislu. Ekki er þessu eftirliti framfylgt sem skyldi enda eru þessar stofnanir undirmannaðar og fjársveltar.
Héraðsskjalaverðir, ýmist einstakir eða fleiri saman, hafa viðrað áhyggjur sínar vegna stöðu mála og hefur það birst í ýmsu, má þar m.a. nefna:
• Ósk um að ákvæði sveitarstjórnarlaga um færslu fundargerða hjá sveitarfélögum yrðu ekki felld niður eins og svo var gert. Eftir það var sett fram ósk til innanríkisráðherra um að sett verði samhljóða ákvæði í reglugerð. Gagnrýnt var harðlega að afnumin var lagaskylda um færslu fundargerða í ljósi þess sem fram kom í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis árið 2010 um misbresti í þeim efnum.
• Athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um Þjóðskjalasafn Íslands/opinber skjalasöfn sem beindust m.a. gegn því að minnkaðar verði eftirlitsskyldur skjalavörslustofnana með skjalavörslu stjórnvalda en einnig að felld væru niður ákvæði um að hafa opna lestraraðstöðu fyrir almenning í opinberum skjalavörslustofnunum.
Ábendingar Jóhönnu eru mikilsverðar til þess að vekja almenning og stjórnvöld til vitundar um að úrbóta er þörf í þessum efnum.