F.v. Soffía og Guðmunda með hluta skjalanna.

Félag héraðsskjalavarða hefur að undanförnu lagt nokkra áherslu á skjalavörslumálefni grunnskóla og hafa héraðsskjalasöfn tekið til hendinni í þeim efnum.

Miðvikudaginn 28. júní sl. afhenti Snælandsskóli í Kópavogi Héraðsskjalasafni Kópavogs fyrstu afhendingu skjala skólans, sem stofnaður var árið 1974.
Félag héraðsskjalavarða hefur haldið námskeið um skjalavörslu grunnskóla og nokkur héraðsskjalasöfn hafa hafið samstarf með skólum í sínum umdæmum um skráningu og afhendingu eldri skjala og upptöku skjalavistunaráætlana.

Í þessari afhendingu Snælandsskóla eru fundargerðir kennarafunda, bekkjarkladdar, námsvísar og útgefið efni skólans. Skjölin skráðu Guðmunda H. Gunnlaugsdóttir og Soffía Kristinsdóttir. Með haustinu verður unnið að frekari skráningu eldri skjala sem og áframhaldandi vinnu við skjalavistunaráætlun skólans.

Héraðsskjalasafn Kópavogs hefur lagt drög að skráningu og afhendingu eldri skjala í fleiri skólum í Kópavogi, t.a.m. afhenti Kópavogsskóli á síðasta ári bekkjarkladda frá 1945-2008. Má vænta þess að gott samstarf haldi áfram með skólunum í Kópavogi og Héraðsskjalasafni Kópavogs.

Skjalamálefni grunnskóla í deiglunni