Stjórn Félags héraðsskjalavarða hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra bréf dags. 20. júní 2012 vegna fjárframlaga ríkisins til héraðsskjalasafna. Fjárframlaginu sem er á fjárlögum ár hvert hefur verið úthlutað til héraðsskjalasafnanna af Þjóðskjalasafni Íslands.

Héraðsskjalaverðir gerðu árið 2009 alvarlegar athugasemdir við misræmi milli fjárlaga og þess sem úthlutað hefði verið til héraðsskjalasafna og fengust þá 9.787.995 krónur greiddar til þeirra af uppsöfnuðu fé. Enn standa þó eftir óútskýrðar yfir 14 milljónir króna frá árunum 1997-2009 miðað við fjárlög þeirra ára.

Eftir að héraðsskjalaverðir gerðu athugasemdir árið 2009 rýrnaði fjárframlagið til héraðsskjalasafnanna árið 2010 og hrundi svo árið 2011. Þá var það lækkað um 50% á sama tíma og Þjóðskjalasafnið þurfti að þola 5% niðurskurð.

Með bréfi stjórnar Félags héraðsskjalavarða fylgir ýtarleg skýrsla um málið studd fylgigögnum og segir m.a. í niðurstöðu hennar:

„Einkennandi fyrir tilhögun og greiðslu á ríkisfjárframlögum til héraðsskjalasafna frá árinu 1995 hefur verið lausung og skortur á vönduðum stjórnsýsluháttum. Reglur um skiptingu framlagsins á milli héraðsskjalasafna hafa verið óskýrar og þær hafa ekki verið kynntar héraðsskjalasöfnunum með formlegum hætti…

Upphæð ríkisfjárframlagsins hefur aldrei verið miðuð við raunþarfir héraðsskjalasafnanna og hefur ekki tekið breytingum í samræmi við skyldur sem lagst hafa á héraðsskjalasöfnin…

Fjármunir sem ætlaðir voru héraðsskjalasöfnum af fjárlögum eru horfnir skýringalaust, um er að ræða yfir 14 milljónir króna. Greinargerða er þörf á því og fjármunum sem héraðsskjalasöfnunum bar að fá að lögum sem ekki hafa skilað sér, ber að skila til þeirra.

Nauðsynlegt er að allt ferli og umsýsla ríkisfjárframlaga til héraðsskjalasafna verði tekið til endurskoðunar frá grunni með formfestu, skýrleika og gagnsæi að markmiði.“

Ráðstöfun yfir 14 milljóna króna óútskýrð