Laugardaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í Alþjóðlega skjaladeginum og eru með opið hús. Á vef alþjóða skjalaráðsins ICA er hægt að skoða dagskrá safna annarra landa.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

Héraðsskjalasöfnin tuttugu eiga með sér gott og öflugt samstarf. Félag héraðsskjalavarða á Íslandi var stofnað árið 2009 og það hefur staðið fyrir fræðslu fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna og sveitarfélaga, haldið málþing, sýningar og verið með margvísleg samstarfsverkefni. Eitt af samstarfsverkefnunum var í skjalamálum grunnskóla og hafa flestir grunnskólar landsins bætt skjalavörslu sína og afhent eða undirbúið afhendingu eldri skjala til viðkomandi héraðsskjalasafns. Þau sveitarfélög sem ekki eiga aðild að héraðsskjalasafni, til dæmis Hafnarfjörður, Garðabær, sveitarfélög á Suðurnesjum og Snæfellsnesi, eru skilaskyld til Þjóðskjalasafns Íslands og íbúar þeirra þurfa að sækja þjónustu til Reykjavíkur til að fá aðgang að skjölin sínum eða fræðast um sögu sveitarfélagsins.

althjodlegi_skjalad_2012_1

Félagið hefur staðið fyrir þremur herferðum í söfnun einkaskjalasafna. Það fyrsta var átak í söfnun skjala kvenfélaga í samstarfi félagsins og Kvenfélagasambands Íslands. Það skilaði góðum árangi og fjöldi skjalasafna barst héraðsskjalasöfnum meðan á átakinu stóð og eftir það. Næsta átak var að safna skjölum sóknarnefnda í samstarfi við embætti biskups Íslands. Þau skjöl eru ennþá að berast söfnunum. Þá hófst í apríl átak í söfnun skjala íþróttafélaga um land allt í samstarfi við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og mun það standa allt þetta 100 ára afmælisár ÍSÍ. Eru íþróttafélög um land allt og þeir sem hafa undir höndum skjöl tengd íþróttaiðkun, hvattir til að koma skjölum sínum til varðveislu á næsta héraðsskjalasafn. Lista yfir söfnin er að finna hér til vinstri á síðunni.

althjodlegi_skjalad_2012_2

Héraðsskjalasöfnin munu mörg vera með opið hús föstudaginn 8. júní eða minnast Alþjóðlega skjaladagsins með öðrum hætti. Þau munu kynna gestum starfsemi safnanna og afrakstur ofangreindra átaka í söfnun skjala. Þann dag er Söguþing 2012 í fullum gangi en Félag héraðsskjalavarða og nokkur héraðsskjalasöfn eru meðal styrktaraðila þingsins.

althjodledi_skjalad_2012_3

Eftirtalin héraðsskjalasöfn hafa kynnt að þau verði með opið hús föstudaginn 8. júní  og bjóða gestum upp á kaffi og meðlæti. Tilvalið að kíkja við og spjalla við starfsmenn og eru allir velkomnir. Söfnin taka á móti einkaskjalasöfnum þennan dag eins og aðra daga.

Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu, Nýheimum, Litlubrú. Opið hús kl. 14-16.

Héraðsskjalasafn Árnesinga, Austurvegi 2, Selfoss. Opið hús kl. 14-16.

Héraðsskjalasafn Kópavogs, Digranesvegi 7, Kópavogi. Opið hús kl. 14-16.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 3. hæð. Opið hús kl. 14-16.

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ. Opið hús kl. 10-12.

Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar, Dalbraut 1, Akranesi. Opið hús kl. 14-16.

Héraðsskjalasafn á Akureyri, Brekkugötu 17, Akureyri. Opið hús kl. 14-16.

Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Safnahúsinu, Stóragarði 17, Húsavík. Opið hús kl. 14-16.

Alþjóðlegi skjaladagurinn 9. júní