Stjórn Félags héraðsskjalavarða hefur sent bréflega áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra og utanríkisráðherra um að þeir stuðli að því að Ísland gerist hið fyrsta aðili að Haag sáttmálanum frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

Í áskoruninni er bent á að þau lönd sem viðurkenna sáttmálann skuldbinda sig til að virða eigin menningararf og annarra. Þetta þýðir að menningararfur á ekki að eyðast eða verða fyrir tjóni í stríði. Sáttmálinn á einnig að koma í veg fyrir að menningarverðmæti verði tekin herfangi eða haldið í gíslingu. Aðildarríkin skuldbinda sig auk þess til þess að gera stöðugt nauðsynlegar verndarráðstafanir á friðartímum.

Minnt er á alþjóðlegt samstarf um bláa skjöldinn, en ákvæði um bláa skjöldinn og notkun hans eru í sáttmálanum. Blái skjöldurinn er sambærilegur við rauða krossinn, en snýst um menningarverðmæti. Víðtækt alþjóðlegt samstarf á friðartímum kennt við bláa skjöldinn hefur skipt miklu máli við að afla sérfræðiaðstoðar hvaðanæva að úr heiminum við vernd menningarverðmæta á hamfarasvæðum.

Fjallað hefur verið um Haag sáttmálann og Bláa skjöldinn áður hérna á vefnum:

Bandaríkin gerast aðilar að Haag sáttmálanum um verndun menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

Samtök landsnefnda Bláa skjaldarins og Haiti.

Menningararfleifð og öryggismál.

Áskorun til ráðherra um Haag sáttmálan frá 1954