Allsherjarráðstefna Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, samþykkti í gær 7. nóvember 2011 Almennu skjalasafnayfirlýsinguna sem Alþjóða skjalaráðið hefur sett fram.
Þessi ákvörðun skiptir nokkru máli í þeirri viðleitni að auka almennan skilning á skjalasöfnum. Hún gefur tilefni til þess að vekja almenning og lykilmenn í valdastöðum enn betur til meðvitundar um skjalasöfn.
Yfirlýsingin er öflugur, stuttur og hnitmiðaður texti um mikilvægi skjalasafna í nútímasamfélagi. Í henni er lögð áhersla á lykilhlutverk skjalasafna við gagnsæja stjórnsýslu og lýðræðislega ábyrgð, jafnframt því að þau varðveiti hið sameiginlega minni samfélagsins.
Um leið og yfirlýsingin tekur til þess hefðbundna viðfangsefnis að þjóna þörfum sagnfræðirannsókna, setur hún skilvirkt skjalahald í öndvegi sem grundvallarstarfsemi sem styrkir nútímalega stjórnsýslu, góða starfshætti í einkarekstri og auðvelt aðgengi að upplýsingum fyrir borgarana.
Fyrsta gerð yfirlýsingarinnar var sett fram af skjalavörðum í Québec árið 2007. Hún var tekin upp af deild fagfélaga (Section of Professional Associations (SPA)) í Alþjóða skjalaráðinu (ICA) sem bættu textann með það fyrir augum að helsti boðskapur yfirlýsingarinnar héldi merkingu sinni þvert á tungumál og menningarheima. Þetta kom af stað frjórri umræðu innan Alþjóða skjalaráðsins uns yfirlýsingin var einróma samþykkt á ársfundi Alþjóða skjalaráðsins í Osló, í september 2010. Frá þeim tíma hefur alþjóðasamfélag skjalavarða unnið að því að fá yfirlýsinguna samþykkta af UNESCO og því markmiði hefur nú verið náð.
Almenna skjalasafnayfirlýsingin