Of algengt er að stafrænar fjölskyldumyndir glatist vegna hruninna diska og annarra áfalla. Hægt er að draga úr líkum á gagnatapi með góðum undirbúningi og miðar listinn hér fyrir neðan að því að þú getir verið í stakk búinn til að varðveita minningar á sem öruggastan hátt.

Stafræn geymsla mynda og annarra gagna getur verið dýr. Hægt er að velja ódýrari leiðir en þær sem hér er mælt með, en þá minnka líkurnar á tryggri varðveislu gagnanna að sama skapi. Ódýrasta leiðin er að varðveita myndirnar einungis í pappírskópíum. Sú aðferð er ekki gallalaus, því þá hverfur möguleikinn á að prenta myndirnar stærri eða í meiri upplausn. Kosturinn við þá leið er aftur á móti að þá þarf ekki sífellt að endurnýja dýran tæknibúnað (tölvur, diska, forrit, áskrift að gagnavörslu/myndabanka á neti) til að hafa aðgengi að myndunum.

Þessar leiðbeiningar miða að varðveislu myndanna í tvennum skilningi, í fyrsta lagi tryggri varðveislu myndanna sjálfra og í öðru lagi tryggri skráningu upplýsinga um hvað er á myndunum, því til lítils er að varðveita myndir fyrir komandi kynslóðir þegar gleymst getur hver tók, hvar, hvenær, af hverju eða hverjir á þeim eru.

Hvaða leið sem þú velur er gott að leggja niður fyrir sér ákveðið verkferli sem fylgt er, frá töku til geymslu, vinnslu og loks vörslu myndanna.

Sex atriði sem gott er að hafa í huga við varðveislu stafrænna mynda.
1. Grisjun

Ekki geyma 10 nánast eins myndir af sama atburði, veldu þá bestu og eyddu hinum. Slík sjálfsritstjórn tryggir líka að gæði myndasafnsins aukast. Ágæt hugmynd getur líka verið að búa til sérstakt albúm með úrvali þinna eftirlætismynda. Ef albúm er merkt „Bestu myndirnar mínar“ er ólíklegra að því verði hent í tiltekt.

2. Skráarsnið

Athugið að þótt RAW-skrár fullkominna myndavéla séu betri en JPEG-skrár til myndvinnslu, þá eru mismunandi RAW-snið ólíkra framleiðenda oft bundin við ákveðinn hugbúnað við aflestur, sem getur stefnt framtíðarlæsileika þeirra í voða. Til að tryggja læsileika skjalanna er best að vista skrárnar í opnu og/eða algengu skráarsniði, t.d. JPEG eða TIFF.

3. Stærð

Ekki geyma stærri myndir en þú þarft. Hafðu notkun myndarinnar í huga þegar þú ákveður að geyma hana. 2,2 megapixlar er nóg til að prenta mynd (m.v. 300 dpi upplausn) í stærðinni 10x15cm (venjuleg myndastærð fyrir albúm) og 1,0 megapixlar er nóg til að setja mynd á netið í skjáupplausn (72 dpi) í stærðinni 800×1250 pixlar. Þó ber að hafa í huga að eftir að mynd hefur verið minnkuð og vistuð er ekki hægt að stækka hana aftur nema skerða myndgæði verulega.

4. Skrár

Raðaðu myndunum í möppur eftir kerfi, og skrifaðu hjá þér hvernig kerfið er, hvort sem þú lætur þær vera eftir dagsetningu, viðburði eða hverjir eru á myndunum. Gerðu textaskjal með lista yfir heiti myndaskránna og lýsingu á hverri fyrir sig.

5. Vistun

Geymdu stafrænu myndirnar á a.m.k. tveimur stöðum með tveimur mismunandi aðferðum. Góð leið er t.d. að hafa utanáliggjandi drif með tveimur eða fleiri diskum sem spegla hvorn annan (t.d. external RAID system) og vista myndirnar á netinu (cloud storage/online backup service).

Ekki er mælt með skrifanlegum CD eða DVD diskum, gæði diska eru mjög mismunandi á milli framleiðenda svo erfitt er að átta sig á því hve lengi gera má ráð fyrir að hann endist og hættan á því að diskurinn verði ólæsilegur vegna hnjasks, hitabreytinga eða ljósmengunar er of mikil.

Einn utanáliggjandi harður diskur er ágætur, en þó er alltaf hætta á að hann hrynji. Því er tryggara að hafa tvo eða fleiri sem spegla hvor annan, eins og áður er getið. Athugaðu afritin árlega.

6. Prentun

Eigðu prentuð eintök gerð með viðurkenndum aðferðum til varðveislu. Athugaðu gæði pappírs og bleks hvort sem þú prentar heima eða kaupir þjónustu framköllunarstofu. Gerðu prentaða skrá yfir hver tók myndirnar, hvar og hvenær, og hverjir eru á þeim. Ekki skrifa aftan á myndirnar því blek í pennum getur haft skaðleg áhrif. Betra er að gefa þeim númer skrifað hjá þeim í albúmið (til öryggis má skrifa númerið varlega með blýanti aftan á myndina) og lýsa þeim í skránni undir samsvarandi númeri.

Geymdu myndirnar í albúmum eða öskjum sem hafa ekki skaðleg áhrif á ljósmyndapappírinn. Spurðu eftir umbúðum sem hafa staðist PAT-prófið (Photographic Activity Test) eða fáðu upplýsingar á næsta héraðsskjalasafni. Flest albúm með plastvösum eru skaðleg, ef plast er notað verður að ganga úr skugga um að það sé úr hreinu óhúðuðu polyethelene, polypropylene eða polyester.

Alls ekki nota plastvasa úr PVC efni. Best er að nota albúm með pappírssíðum (mælt er með sýrufríum óbufferuðum trénislausum pappír úr bómull eða mjög vel hreinsuðum pappírsmassa) og nota laus horn sem hafa staðist PAT prófið til að festa myndirnar í bókina, frekar en að líma myndina beint. Sé það gert verður límið að hafa staðist PAT prófið, annars geta komið flekkir á myndirnar og þær aflitast.

Hægt er að auka öryggið með því að búa til tvö eða fleiri sett af myndunum og geyma á mismunandi stöðum, t.d. hjá fjölskyldu eða vinum.

Lesefni á vefnum um vörslu stafrænna mynda:

GMH

Fræðsla – Varðveisla stafrænna ljósmynda í einkaeigu