Gísli Rafn Ólafsson (t.h.) afhendir Hrafni Sveinbjarnarsyni héraðsskjalaverði elstu bókina í safninu, Tíðindi frá Alþíngi Íslendinga. Fyrsta þíng 1. júlí til 5. ágúst 1845. Annar útgefendanna var Jón Sigurðsson, auknefndur forseti, en 17. júní nk. verða liðin 200 ár frá fæðingu hans. Fyrir aftan má sjá Alþingistíðindin.

Föstudaginn 15. apríl afhentu Gísli Rafn Ólafsson og Jóhanna Axelsdóttir Héraðsskjalasafni Kópavogs safn innbundinna Alþingistíðinda afa síns og föður, Axels Jónssonar (1922-1985).

Axel var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi frá 1962-1982, í bæjarráði 1962-1975 og 1978-1979, forseti bæjarstjórnar 1976-1977. Axel sat á þingi fyrir Reykjaneskjördæmi 1965-1967 og 1969-1971, hann var landskjörinn alþingismaður í Reykjaneskjördæmi 1974-1978. Þar fyrir utan gegndi Axel fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Ungmennafélagshreyfinguna og Sjálfstæðisflokkinn auk þess sem hann sinnti bindindismálum.

Alþingistíðindunum safnaði Axel á löngum tíma og lagði sig fram um að safnið yrði sem fullkomnast. Bækurnar eru í góðu bandi og eru í góðu ástandi miðað við aldur, en elsta bókin er frá fyrsta þingi endurreists Alþingis 1845.
Einstakt er að svo heilt og gott safn Alþingistíðinda sé gefið og má telja víst að óvíða á landinu sé aðgangur að þessum grundvallarritum löggjafans betri.

Gestir Héraðsskjalasafns Kópavogs hafa aðgang að handbókasafni stofnunarinnar, sem telur auk Alþingistíðindanna ágætt safn Stjórnartíðinda, lagasafna, fagrita á sviði skjalavörslu og sagnfræðirita, bæði um sögu Kópavogs sérstaklega og einnig um landssöguna. Handbækurnar eru ætlaðar sem stuðningur við þá sem nýta sér þau skjöl sem skjalasafnið geymir, en skrár yfir skjalasöfn í vörslu stofnunarinnar er að finna í Ársriti Héraðsskjalasafns Kópavogs og einnig er hægt að spyrjast fyrir á skrifstofum safnsins að Hamraborg 1.

GMH

Vegleg bókagjöf til Héraðsskjalasafns Kópavogs