her_akranes_syning_2011

Ljósmyndasafn Akraness opnar í dag sýningu á myndum Helga Daníelssonar í húsakynnum Bókasafns Akraness. Hvetjum áhugasama til að skoða sýninguna.

Skagamanninum Helga Daníelssyni (1933-) er ýmislegt til lista lagt en hann er fyrrum yfirlögregluþjónn og fótboltakappi sem hefur í gegnum áratugina horft reglulega í gegnum linsuauga myndavélarinnar og fest á filmu samtíma sinn. Þegar Akraborgin lagði upp í sína síðustu áætlunarferð á Skagann fylgdu Helgi og sonur hans Friðþjófur henni eftir með myndavélunum sínum.

Á ljósmyndasýningunni sem nú er komin á vegginn í Bókasafni Akraness gefur að líta kveðjuferð „Boggunnar“, á hafnarbakka Reykjavíkur og Skaga, fólkið um borð og kveðjuathöfnina sem haldin var á hafnarbakkanum á Akranesi.

Þegar Akraborg hætti ferðum lauk lengstu samfelldu sögu í samgöngumálum Íslendinga því allt frá síðasta áratug nítjándu aldar hafa verið reglulegar siglingar með fólk og varning á Faxaflóa.

Hér fyglir yfirlit yfir áætlunarferðir um Faxaflóa.

1891 Lítið gufuskip, Faxi, keypt til landsins af Sigfúsi Eymundssyni til siglinga milli þéttbýlisstaða við Faxaflóa.

1897 Siglingar milli Reykjavíkur, Borgarness og Akraness verða nokkuð reglulegar.

1932 Hlutafélagið Skallagrímur stofnað til að annast fólks- og vöruflutninga milli Reykjavíkur og Borgarness. Siglt á es. Suðurlandi.

1935 Ms. Laxfoss kemur til landsins og siglir á milli Reykjavíkur, Akranesso g Borgarness.

1952 Laxfoss eyðileggst við strand og er ms. Eldborg leigð til siglinganna.

1966 Ferðum í Borgarnes hætt.

1974 Akraborgin leyst af hólmi með nýju skipi sem einnig hlýtur nafnið Akraborg. Það er fyrsta bílferjan í eigu Íslendinga.

1982 Þriðja Akraborgin tekin í notkun.

1998 Þann 10. júlí sigldi Akraborgin sína síðustu ferð.

Frá árinu 1974 til 1998 höfðu bílar verið fluttir með Akraborginni. Fyrsta árið voru 4.862 bílar fluttir, þá var ekki komin bílabrú í skipið og bílum lyft um borð. Árið 1976 þegar brúin var komin var fjöldi bíla 37.797, þá höfðu alls verið fluttir 62.178 bílar. Árið 1986 var metár og 80.529 bílar voru ferjaðir það árið, alls höfðu 680.222 þá verið fluttir. Í lok árs 1997 var fjöldi bíla kominn í 1.423.482. Starfsmenn Akraborgarinnar voru 22, og unnu tólf á vakt í einu. Flestir í áhöfninni höfðu um tuttugu ára starfsaldur og sögðu starfsmenn nánast engan hafa hætt fyrr en ástæða var til vegna aldurs.

Versta veður sem Akraborgin sigldi í var 3. febrúar 1991. Þá var suðvestanátt og 12 vindstig. Siglingin sem vanalega tók 1 klst. tók 3 ½ klukkustund. Mikill veltingur var á skipinu eins og hallamælirinn sýndi en hann var í botni allan tímann, 40 gráðum.

GJJ

Síðasta ferð Akraborgar – Ljósmyndasafn Akraness