Svokölluð „pappírslaus viðskipti“ og algjörlega rafræn málsmeðferð frá upphafi til enda hafa leitt til þess að fjármálastofnanir í Bandaríkjunum virðast ekki hafa gild skjöl í höndum þegar þeir hyggjast ganga að veðum húsnæðislána.
Í þessum vandræðum hefur verið leitað til skjalafölsunarverksmiðju „Document Forgery Mill“. Á þetta ráð var brugðið þegar ekki voru fyrir hendi löglega gerð og gild skjöl til sönnunar. Milljarðar bandaríkjadala eru í húfi.
Skjalafölsunarverksmiðjan gengur undir því straumlínulagaða nafni Docx.
Lynn E. Szymoniak komst að þessu, þegar hún stóð sjálf gagnvart veðkalli í eign sína. Í henni hittu lánardrottnarnir fyrir lögfræðing sem hefur þjálfað FBI agenta og er sérfróð um skjalafals.
Frá þessu er skýrt á CBS sjónvarpsstöðinni:
Myndskeið
Texti
Þetta vekur áhyggjur í ljósi hugmynda um „rafræna skjalavörslu“ og gildi þeirra gagna sem lenda í slíkri vörslu eftir að hafa verið varpað rafrænt á vörsluform og framkölluð aftur á læsilegt form. Verður hægt að treysta slíkum gögnum t.d. miðað við kröfu dómstóla um milliliðalausa sönnunarfærslu? Útprentun búin til eftir á af öðrum málsaðila í ágreiningsmáli, beinlínis í tilefni málsins, er býsna vafasamt sönnunargagn og ólíklegt að það standist.
Fari stjórnvöld út í „rafræna skjalavörslu“ án þess að takast á við þetta vandamál, er hætt við að vandamálið bíti þau illa í afturendann líkt og bandarísku bankana. Skaðinn sem af hlýst verður borinn af þeim sem brotið er á með svona ábyrgðarleysi, líklega yrðu það skattgreiðendur þegar upp er staðið.
Hér á landi er þess vel gætt að afla undirskrifta á lánaskjöl. Á hinn bóginn kemur hér fyrir rík drottnunarhyggja yfir skjölum einstaklinga sem kynnt er í formi rafrænnar þjónustu af hálfu opinberra stofnana og fjármálastofnana. Fólk er neytt til þess að afsala sér pappír með innheimtu seðilgjalda og greiðslu fyrir að fá send skjöl og reikninga á pappírsformi. Launaseðlar eru sendir þriðja aðila (banka) til birtingar á netbanka og hverfa svo þaðan í tímans rás. Þetta er stundum göfgað með vísan til náttúruverndar og pappírssparnaðar. Með þessu áframhaldi hættir borgarinn hægt og rólega að hafa neitt í höndunum og verður ofurseldur gögnum á hverfulu rafrænu formi í höndum stjórnvalda og fjármálavalds. Einokun gagna er með þessu komið á í höndum stórfyrirtækja og opinbers valds. Rafræna þjónustan er ekki verðlögð þótt hún kosti umtalsvert fé, það er látið falla á almennan rekstur, en seðilgjöld og sendingarkostnaður er ekki látinn falla á almennan rekstur.
Það verður að hafa hugfast að fleiri skjöl en þau er snúa að beinum fjármálahagsmunum geta skipt fólk miklu máli og haft veruleg áhrif á líf þess og lífshamingju. Skjöl eru ekki bara gamalt pappírsdrasl þótt þannig viðhorf megi ótrúlega oft og víða heyra.
Vonandi bera íslensk stjórnvöld gæfu til að skilja þetta áður en þau verða sjálfum sér til skammar með áþekkum mistökum og hafa orðið í Bandaríkjunum.