18. nóvember var undirritaður samningur um varðveislu á heildarskjalasafni Kaupmannasamtaka Íslands og forvera þeirra, á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Við sama tækifæri færðu Kaupmannasamtökin safninu ríflegan styrk til skráningar safnins og kynningar á sögu samtakanna.

borgarskj_og_kaupmannasmt_2

Það voru þau Benedikt Kristjánsson, formaður Kaupmannasamtakana og Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður sem skrifuðu undir samninginn. Viðstaddir voru stjórnarmenn í samtökunum og eldri félagsmenn, auk starfsmanna safnsins. Í tilefni af þessum viðburði og 60 ára afmæli Kaupmannasamtakanna var Borgarskjalasafni færður styrkur að upphæð ein og hálf milljón sem nýta skal til að skrá og ganga frá skjalasafninu, skrá minningar elstu félagsmanna og gera safnið aðgengilegt fræðimönnum og almenningi. Að sögn borgarskjalavarðar stendur einnig til að gera elstu fundagerðarbækur aðgengilegar stafrænt á vef safnsins.

Þann 8. nóvember sl. voru 60 ár liðin frá því Kaupmannasamtök Íslands voru stofnuð. Fjögur sérgreinafélög smákaupmanna tóku þá höndum saman um stofnun Sambands smásöluverslana: Kaupmannafélag Hafnarfjarðar, stofnað 1921; Félag matvörukaupmanna, stofnað 1928; Félag vefnaðarvörukaupmanna, stofnað 1932 og Félag búsáhalda- og járnvörukaupmanna, stofnað 1939. Nafni sambandsins var síðan breytt í Kaupmannasamtök Íslands.

thorvaldur_gudmundsson_i_sild_og_fiski

Þorvaldur Guðmundsson í Síld og Fiski við störf.

Um miðja síðustu öld þegar Samband smásöluverslana var að stíga sín fyrstu spor var vöruinnflutningur í lágmarki og víðtækar skammtanir á ýmsum vöruflokkum. Á meðal hagsmunamála sambandsins á upphafsárum þess var baráttan fyrir afnámi ýmis konar verslunarhafta.

Skjalasafnið sem Borgarskjalasafn fékk til afhendingar og eignar með samningnum í dag er heillegt og nær allt frá árinu 1928 til ársins 2000. Í því eru meðal annars fundagerðir stjórnar Kaupmannasamtakanna og forvera þeirra allt frá árinu 1928, bréfa og málasafn, skjöl allra 14 sérgreinafélaga Kaupmannasamtakanna, prentað efni tengt verslun og neytendamálum, ljósmyndir frá ýmsum tímum, úrklippubækur tengdar starfsemi félagsins og upptökur af aðalfundum og fleira.

Eftir undirritun samningsins flutti Benedikt Kristjánsson, formaður Kaupmannasamtakanna ávarp þar sem hann lýsti vilja félagsmanna að varðveita sögu þeirra með því að koma skjalasafninu til varðveislu á Borgarskjalasafn og veita styrk til að skrá það og gera aðgengilegt.

gudlaugur_palsson_eyrarbakka

Guðlaugur Pálsson í verslun sinni á Eyrarbakka.

Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður ræddi í ávarpi sínu um mikilvægi þess að varðveita sögu verslunar í Reykjavík og á landinu öllu. Hún minntist á að í tilefni af þessum tímamótum og þessari höfðinglegu gjöf væri ástæða til þess að hvetja þá sem hefðu undir höndum skjalasöfn eldri verslana að koma þeim á opinbert skjalasafn til varðveislu. Borgarskjalasafn hefði áhuga á að fá frá verslunum vörulista og skrár sem sýndu vöruúrval þeirra, bréfasöfn, ljósmyndir, auglýsingar og svo framvegis. Svanhildur minntist að lokum á það að saga verslana í Reykjavík væri samofin sögu borgarinnar og það væri ómetanlegt að svo ríkulegt safn um sögu verslunar væri komið til varðveislu.

Kaupmannasamtök Íslands afhenda skjalasafn sitt á Borgarskjalasafn Reykjavíkur