Í dag er eru 25 ár frá því að Ólafur Ásgeirsson, þjóðskjalavörður, undirritaði stofnsamþykkt Héraðsskjalasafns Árnesinga og telst 15. nóvember 1985 því formlegur stofndagur héraðsskjalasafnsins.

Undirbúning að stofnun Héraðsskjalasafns Árnesinga má þó rekja aftur til vorsins 1982 þegar félag áhugamanna um héraðssögu Árnessýslu var stofnað en meginmarkmið félagsins var að koma á fót héraðsskjalasafni. Á fundi þá um haustið var ákveðið að leigja húsnæði að Kirkjuvegi 16 til starfseminnar. Skjöl voru þegar farin að berast skjalasafninu, m.a. skjalasafn Björns Sigurbjarnarsonar, Björns í bankanum. Þá hafði Bæjar- og héraðsbókasafnið á Selfossi einnig tekið við fjölda afhendinga.

Á aðalfundi sýslunefndar 6. og 7. júní 1985 var stofnskrá Héraðsskjalasafns Árnesinga samþykkt og 15. nóvember undirritaði þjóðskjalavörður stofnsamþykktina eins og áður sagði.

herarn_stjorn_2010

Stjórn Héraðsskjalasafns Árnesinga og starfsmenn á stjórnarfundi sem haldinn var 15. nóvember 2010 í tilefni af 25 ára afmæli skjalasafnsins. Frá vinstri Þorsteinn Tryggvi Másson héraðsskjalavörður, Sveinn Steinarsson varaformaður, Kjartan Björnsson formaður stjórnar, Tryggvi Steinarsson ritari og Sævar Logi Ólafsson skjalavörður.

Sumarið 1985 var Finnur Magnússon ráðinn til að fara um sýsluna til að safna skjölum, afla upplýsinga og kynna skjalasafnið. Árið 1986 var Inga Lára Baldvinsdóttir ráðin til að safna skjölum en Kristinn Júlíusson sá um móttöku skjala. Pétur M. Sigurðsson sá um reikningshald. Ekki var fastur starfsmaður við safnið á þessum tíma.

Í lok árs 1987 var óskað eftir því að starfsemi safnsins yrði flutt í sýningarsal safnahússins við Tryggvagötu 23 og á vormánuðum 1988 var skjalasafnið flutt. Erlingur Brynjólfsson gekk þá til liðs við skjalasafnið en þeir Pétur og Kristinn hættu.

Vatnaskil urðu í rekstri skjalasafnsins árið 1990 þegar ákveðið var að ráða starfsmann í hálfa stöðu við skjalasafnið. Björn Pálsson sem var flestum hnútum kunnugur var ráðinn en Björn tók á sínum tíma þátt í stofnun áhugamannafélagsins og var fyrsti formaður stjórnar skjalasafnsins eftir að það fékk starfsleyfi þjóðskjalavarðar. Þann 8. september 1991, á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar, var skjalasafnið flutt í framtíðarhúsnæði í austurenda gamla kaupfélagshússins sem nú hýsir bæði Bókasafn Árborgar og Ráðhús Sveitarfélagsins Árborgar. Björn lét af störfum í ágústlok 2009 og Þorsteinn Tryggvi Másson var þá ráðinn héraðsskjalavörður.

Á héraðsskjalasafninu eru nú um 1.000 hillumetrar af skjölum frá sveitarfélögum í sýslunni og undirstofnunum þeirra auk skjala frá fjölda félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Yfir 100.000 ljósmyndir hafa borist skjalasafninu. Nú er unnið að því að gera þær aðgengilegar almenningi. Afhendingarnar á þessum 25 árum eru orðnar um 1.300 talsins.

Á haustfundi sínum samþykkti Héraðsnefnd Árnesinga að kosta tvær stöður við skjalasafnið. Árið 2011 munu starfsmenn skjalasafnsins vinna náið með starfsmönnum allra sveitarstjórnarskrifstofa í Árnessýslu við gerð bréfa- og málalykla. Flóahreppur er eina sveitarfélagið á landinu með bréfa- og málalykil sem hefur verið samþykktur af opinberri skjalavörslustofnum. Markmið héraðsskjalasafnsins er að öll sveitarfélögin í sýslunni verði með samþykkta lykla árið 2011.

ÞTM

Héraðsskjalasafn Árnesinga 25 ára