Hinn árlegi Norræni skjaladagur var haldinn hátíðlegur laugardaginn 14. nóvember 2009. Í tilefni dagsins var, eins og undanfarin ár, settur upp sérstakur vefur Norræna skjaladagsins með söguköflum frá Þjóðskjalasafni Íslands og héraðsskjalasöfnunum.

Þjóðskjalasafn Íslands, Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Héraðsskjalasafn Kópavogs héldu sameiginlega upp á daginn í húsnæði Þjóðskjalasafnsins að Laugavegi 162. Kvenfélagasamband Íslands tók einnig þátt í deginum á Þjóðskjalasafninu sem að þessu sinni var helgaður konum og kvenfélögum.

norrskjaladagur14nov2009radhskjalaverdir1

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður, Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður Kópavogs og Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður í Þjóðskjalasafni Íslands á Norrænum skjaladegi 14. nóvember 2009.

Viðfangsefnið sem varð fyrir valinu „Konur og kvenfélög“ helgaðist af þeirri áherslu sem héraðsskjalasöfnin hafa lagt á viðtöku skjalasafna kvenfélaga í átaksverkefni sem lauk nýlega. Afrakstur þess verður kynntur hér á vefnum.

Skjalasöfnin voru fjölsótt og tókst dagurinn með ágætum. Héraðsskjalasöfnin á Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði og Akureyri höfðu opið hús á deginum. Sýningar í tilefni dagsins og í framhaldi af honum eru haldnar í nokkrum héraðsskjalasafnanna, sjá dagskrá skjaladagsins.

HS

Norrænn skjaladagur 2009