Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra gangsetti nýjan manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands laugardaginn 14.nóvember 2009 á dagskrá í Þjóðskjalasafni Íslands að Laugavegi 162 í tilefni hins árlega Norræna skjaladags.
Í gangsetningarávarpi sínu gerði menntamálaráðherra að umtalsefni tengslin við upprunann og mikilvægi skjala fyrir minni, sögu og sjálfsvitund þjóðarinnar.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra gangsetur manntalsvef Þjóðskjalasafnsins 14. nóvember 2009 við dynjandi lófatak.
Benedikt Jónsson sérfræðingur á Þjóðskjalasafninu kynnti svo vefinn með því að rekja sögu eins einstaklings í manntölum á vefnum.
Manntalsvefurinn er árangur innsláttarverkefnis sem fram hefur farið víða um land m.a. í tengslum við mótvægisaðgerðir gegn atvinnuleysi á landsbyggðinni vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Það byggðist á samstarfi Þjóðskjalasafns við héraðsskjalasöfn en þau tryggðu öryggi skjalanna, fagþekkingu við meðferð og umgengni við þau um leið og hugsað var til þess að efla starfsemi héraðsskjalasafnanna. Héraðsskjalasafnið í Vestmannaeyjum, Héraðsskjalasafn Austfirðinga á Egilsstöðum og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga á Sauðárkróki unnu að skráningunni.
Er nánari grein gerð fyrir undirbúningi og vinnu að manntalsvefnum á sjálfum vefnum, auk þess um hvaða manntalsupplýsingar er að ræða (undir Upplýsingar): Manntalsvefur Þjóðskjalasafnsins
Fagna ber því greiða aðgengi sem fæst að manntalsupplýsingum með þessum vef.
Mikilvægt er að frumskjöl, eins og manntöl, sem vænta má að margir vilji skoða, t.d. ættfræðingar, fái hvíld með því að gera afrit af þeim aðgengileg. Með því er sönnunargildi þeirra og upprunaleiki varðveittur óskertur ókomnum kynslóðum til handa.
Kirkjubækur eru aðgengilegar á netinu erlendis á heimasíðum þjóðskjalasafna og verður þess vonandi ekki langt að bíða að Þjóðskjalasafnið geri íslenskar kirkjubækur aðgengilegar á vef sínum.
HS