leifurreynissonsmarit4kopavogur

Leifur Reynisson með ritið

Út er komið ritið Landnemar í Kópavogi eftir Leif Reynisson sagnfræðing, fjórða heftið í ritröð Sögufélags Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs. Í því segir frá bræðrunum Finnjóni og Sveini Mósessonum og frumbýlingsárum þeirra í Kópavogi, en þeir hófu að reisa sér og fjölskyldum sínum hús við Nýbýla- og Álfhólsveg á fjórða áratug síðustu aldar.

Sagt er frá samheldni nágranna á tímum þegar rafmagn, sími, rennandi vatn og malbikaðir vegir voru framtíðardraumar, einnig hvernig nábýlið við setuliðið var á hernámsárunum og áhrifunum af því þegar byggðin þéttist og Kópavogur breyttist úr sveit í borg.
Leifur er sonarsonur Sveins Mósessonar og er þetta því líka fjölskyldusaga hans. Ritið fæst hjá Héraðsskjalasafni Kópavogs en félagar í Sögufélagi Kópavogs fá ritið sent heim og er það innifalið í félagsgjaldinu. Hægt er að skrá sig í félagið á heimasíðu þess, www.vogur.is eða á skjalasafninu.

Nýtt smárit í Kópavogi