radstefna_husavik_2015_1

Stjórn Félags héraðsskjalavarða sendi  frá sér eftirfarandi áskorun til alþingismanna 11. desember 2015:

Þjóðskjalasafn Íslands er þjónustustofnun og skjalasafn íslensku þjóðarinnar þar sem varðveitt eru og höfð aðgengileg allflest mikilvægustu skjöl um réttindi og sögu lands og þjóðar fyrr og nú. Tilgangur varðveislunnar er að tryggja réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveita sögu íslensku þjóðarinnar. Í skjalasafninu eru nú varðveittir um 42 hillukílómetrar af skjölum sem myndu ná frá Aðalstræti í Reykjavík til Hveragerðis.

Fyrir Alþingi liggur nú breytingartillaga meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 um að húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg 162 verði selt og í staðinn verði keypt eða leigt annað hentugt húsnæði. Tillögurnar komu fram milli umræðna og virðast lítt ígrundaðar og óundirbúnar frá sjónarhorni ábyrgrar skjalavörslu.

Í tillögu fjárlaganefndar er talað um að finna Þjóðskjalasafninu hentugra húsnæði.  Slíkt húsnæði verður ekki hrist fram úr erminni og óljóst hvort samráð hefur verið haft við fagfólk á sviði skjalavörslu um þessi áform. Húsnæði skjalasafna er varanlegt, eðli þeirra samkvæmt, og öll röskun sem fylgir flutningi felur í sér áhættu. Þjóðskjalasafnið varðveitir einstæðan íslenskan menningararf. Allt flaustur við meðferð þessa arfs er viðurhlutamikið og hann er yfir það hafinn að verða leiksoppur þess að bókhald ríkisins árið 2016 sé rétt af með lóða- og fasteignasölu. Ekkert kostnaðarmat hefur farið fram þegar litið er til leigu, hönnunar, byggingar eða kaupa á nýju húsnæði undir Þjóðskjalasafn Íslands. Safnið þarf húsnæði til starfsemi sinnar. Sú starfsemi tryggir réttindi og skyldur sem eru íslenska ríkinu og íslensku þjóðinni verðmætari en svo að henni megi raska fyrir lítt skilgreinda tekjumöguleika.

Þá er vert að benda á að flutningur, skráning og endurskráning skjala er aðeins á færi fagfólks á sviði skjalavörslu. Mikilvægt er að samfella sé í allri skráningu og að henni sé ekki raskað þar sem það getur hindrað aðgengi stjórnvalda og almennings að mikilvægum skjölum þegar á þarf að halda.

Ef til flutnings út úr húsnæðinu kemur er óhjákvæmilegt að safninu yrði lokað í ótakmarkaðan tíma þar sem engin áform liggja fyrir um framhaldið. Ógerlegt væri að svara fyrirspurnum úr skjalasafni sem er í flutningi vegna hættu á glötun skjala. Þar með væri komið í veg fyrir að Þjóðskjalasafn Íslands geti sinnt þeim skyldum sem það ber skv. lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, upplýsingalögum nr. 140/2012 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Það má benda á að frá því að hús Mjólkursamsölunnar var keypt 1985 liðu 13 ár þar til þar til síðustu skjöl Þjóðskjalasafns voru flutt úr Safnahúsinu, árið 1998.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur allt frá stofnun þess verið í hjarta Reykjavíkur – þar ræður mestu þau mikilvægu tengsl sem þurfa að vera til staðar á milli Þjóðskjalasafnsins og æðstu stjórnsýslu ríkisins. Það er ekki síður mikilvægt að standa vörð um þessi tengsl í lýðræðisþjóðfélagi þar sem áhersla er lögð á gagnsæi og bætta upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings.

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi skorar á alþingismenn að standa vörð um húsnæðismál Þjóðskjalasafns Íslands og koma í veg fyrir að ófagleg skammtímasjónarmið stefni rekstri þess og öryggi í voða.

Þjóðskjalasafni breytt í lundabúð?