Sýningin Konur á vettvangi karla er afmælissýning Héraðsskjalasafns Árnesinga. Árið 1915 fengu konur og vinnumenn kosningarétt til Alþingiskosninga – þessum tímamótum hefur verið fagnað með ýmsum hætti á árinu. Réttindabarátta kvenna nær þó bæði lengra aftur og allt fram til dagsins í dag. Á þessari sýningu er sjónum beint að Sunnlenskum konum sem voru eða eru búsettar í Árnessýslu. Sumar þeirra fengu kosningarétt en aðrar ekki. Hér eru nefndar þær konur sem fyrstar sátu sem pólitískt kjörnir fulltrúar íbúa í sínum sveitarfélögum sem aðalmenn í hreppsnefnd, oddvitar, þingkonur og ráðherrar. Það er óhætt að fullyrða að konur vegur kvenna í stjórnmálum hefur vaxið og það er vel.

Undirstaða sýningarinnar er unnin upp úr safnkosti héraðsskjalasafnsins .

Sýningin er afmælissýning héraðsskjalasafnsins en 15. nóvember 1985 undirritaði Ólafur Ásgeirsson þáverandi þjóðskjalavörður stofnsamþykkt skjalasafnsins sem síðar var samþykkt af Héraðsnefnd Árnesinga í desember sama ár. Héraðsskjalasafnið hefur því starfað í 30 ár. Undirbúningur að stofnun safnsins hófst þó þremur árum fyrr með stofnun áhugamannafélags um héraðssögu en eitt af meginmarkmiðum félagsins var að koma á fót héraðsskjalasafni.

Konur á vettvangi karla – afmælissýning Héraðsskjalasafns Árnesinga