Mynd úr safni Arnods Péturssonar af árflóðinu 1948. Á myndasetur.is er fjöld mynda frá flóðunum 1948 og 1968.
Á Vori í Árborg 10. maí var í ljósmyndavefur Héraðsskjalasafns Árnesinga, myndasetur.is opnaður í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Á vefnum eru nú um 45.000 skráðar og óskráðar myndir frá héraðsskjalasafninu. Vefurinn er liður í samstarfsverkefni héraðsskjalasafnanna á Egilsstöðum, Sauðárkróki og Selfossi. En verkefnið er styrkt af Alþingi auk þess sem menningarsjóðir og sveitarfélög á hverjum stað leggja verkefninu lið með myndarlegum hætti. Sveitarfélagið Árborg og Menningarráð Suðurlands hafa frá upphafi styrkt verkefnið myndarlega.
Mynd úr safni Tómasar Jónssonar af vegaframkvæmdum fyrir framan Hótel Selfoss við Eyrarveg.
Myndirnar sem nú eru birtar koma víðsvegar af landinu en flestar eru myndirnar úr Árnessýslu. Forsaga verkefnisins nær aftur til haustsins 2010 en þá sóttu héraðsskjalasöfnin á Egilsstöðum, Sauðárkróki og Selfossi um styrk til atvinnuskapandi verkefnis við skönnun og skráningu á ljósmyndum til Alþingis. Á skjalasöfnunum þremur voru á þeim tíma rúmlega 300.000 ljósmyndir. Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari var á sama tíma að kortleggja ljósmyndara í Árnessýslu en fyrir atbeina Gunnars voru stór söfn Jóhanns Þórs Sigurbergssonar, Sigurðar Jónssonar og Tómasar Jónssonar afhent á Héraðsskjalasafn Árnesinga.
Myndirnar sem núna eru birtar á myndasetur.is er afrakstur af tæplega þriggja ára vinnu á skjalasafninu. Skráning ljósmyndanna er samvinnuverkefni almennings og starfsmanna héraðsskjalasafnsins og því er mikilvægt að allir þeir sem hafa upplýsingar um myndirnar á vefnum hafi samband við safnið. Þekking almennings nýtist þannig komandi kynslóðum til gagns og gamans.
Þá var kortasjá Sveitarfélagsins Árborgar opnuð við sama tækifæri en þar gefur að líta upplýsingar um nokkur af þeim húsum sem reist voru fyrir 1947.