Á skrifstofu Seltjarnarneskaupstaðar: Ása Þórðardóttir afhendir Hrafni Sveinbjarnarsyni
lánsbækurnar  4. september 2012.

Þriðjudaginn 4. september 2012 undirrituðu Ása Þórðardóttir stjórnsýslustjóri Seltjarnarneskaupstaðar og Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður Kópavogs samning um lán fundargerðabóka hreppsnefndar og bygginganefndar Seltjarnarneshrepps frá 1875 til 1948 til afritunar í Héraðsskjalasafni Kópavogs.

Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir það svæði sem nú er  Reykjavíkurborg (að undanskildu Kjalarnesi) Kópavogsbær og Seltjarnarneskaupstaður. Á svæðinu eru tvö héraðsskjalasöfn, Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Héraðsskjalasafn Kópavogs.

Það svæði sem nú er Seltjarnarneskaupstaður og Kópavogsbær var undir sömu sveitarstjórn frá árinu 1875 til ársbyrjunar 1948 sem Seltjarnarneshreppur. Í sveitarstjórnarkosningunum 7. júlí 1946 varð  Framfarafélagið Kópavogur ráðandi með meirihluta hreppsnefndarmanna og leiddi það til þess að sveitarfélaginu var skipt í nýjan Kópavogshrepp og Seltjarnarneshrepp 1. janúar 1948.

Í  bréfi félagsmálaráðuneytisins 10. desember 1948 til sýslumannsins í Kjósarsýslu, um skiptingu Seltjarnarneshrepps í tvö hreppsfélög  (nr. 161/1948) segir í 10. lið:

„Bækur og skjöl Seltjarnarneshrepps hins forna verði eign Seltjarnarneshrepps, en hreppsnefnd Kópavogshrepps skal hafa aðgang að þeim eftir þörfum.‟

Skjöl er varða sögu umdæmis Kópavogsbæjar fyrir þennan tíma eru því í skjalasafni Seltjarnarneskaupstaðar. Til þess að hafa aðgengi að efni þessara skjala í Kópavogi hefur Héraðsskjalasafn Kópavogs hafið afritun skjala með því að fá að láni fimm fundargerðabækur hreppsnefndar Seltjarnarneshrepps frá árunum 1875 til 1948 og fundargerðabók byggingarnefndar Seltjarnarneshrepps frá árunum 1941-1947. Þær verða ljósmyndaðar í Héraðsskjalasafni Kópavogs.

Áformað er að Seltjarnarneskaupstaður afhendi skjöl sín til ársins 1980 Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu.

Gerðabækur Seltjarnarneshrepps lánaðar til afritunar